Þórsarar taka á móti Grindvíkingum í dag
Spænski framherjinn Alvaro Montejo er mættur til leiks og verður í fremstu víglínu hjá Þór í dag, í fyrsta heimaleik liðsins í næst efstu deild Íslandsmótsins í fótbolta, Lengjudeildinni. Grindvíkingar koma þá í heimsókn, viðureign liðanna verður í Boganum og flautað til leiks klukkan 16.00.
Þórsarar töpuðu 4:3 fyrir Gróttu í fyrstu umferð deildarinnar, í bráðfjörugum leik á Seltjarnarnesi, en Grindvíkingar unnu ÍBV 3:1 á heimavelli.
Gaman verður að sjá Alvaro í Þórsbúningnum á ný. Hann á að vera í toppformi enda lék kappinn í vetur í heimalandinu; var með Union Adarve og varð markahæsti leikmaður liðsins þegar það komst upp í C deild (Segunda B). Hann gerði 15 mörk í 22 leikjum, m.a. eina markið í síðustu umferðinni þegar Adarve vann CD Mostoles en sá sigur tryggði liðinu sæti í deild ofar næsta vetur.
Miðvörðurinn Petar Planic var rekinn af velli á lokamínútum leiksins gegn Gróttu og verður því í leikbanni í dag.
Leikurinn verður sýndur beint á sjónvarpsrás Þórs. Smellið hér til að fara þangað inn. Það kostar 1.000 krónur að sjá leikinn.