Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar sigruðu ungmennalið Víkings

Gjörðu svo vel! Sigurður Ringsted Sigurðsson var oft illa gætt á línunni í dag. Hér er eitt sjö marka hans í fæðingu og Víkingsvörnin víðs fjarri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar unnu öruggan og sannfærandi sigur á ungmennaliði Víkings í Grill 66 deild karla í handbolta í dag. Eftir jafnan fyrri hálfleik tóku Þórsarar góðan sprett í upphafi þess seinni og sigldu sigrinum síðan örugglega í höfn. Lokatölur urðu 39-33.

Jafnt var á öllum tölum lengst af fyrri hálfleiks, þar til staðan var 10-10, en þá náðu Þórsarar loks tveggja marka forystu í fyrsta skipti í leiknum. Víkingar höfðu þá þrisvar sinnum fengið tveggja mínútna refsingar á meðan Þórsarar höfðu ekki fengið neina. Þórsarar náðu þriggja marka forskoti og staðan eftir fyrri hálfleikinn 19-16.

Aron Hólm Kristjánsson skorar af vítalínunni í dag. Hann gerði átta mörk í leiknum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson 

Þórsarar náðu góðum kafla í upphafi seinni hálfleiksins, skoruðu þá fjögur mörk í röð og juku muninn í sjö mörk þegar nokkrar mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum. Eftir það var eiginlega aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Víkingar náðu þó að minnka muninn í þrjú mörk þegar um tíu mínútur lifðu leiks, en Þórsarar hleyptu þeim ekki nær og sigu lengra fram úr á lokamínútunum, unnu að lokum sex marka sigur, 39-33.

Með sigrinum ná Þórsarar Fjölnismönnum að stigum, en Fjölnir sigraði ungmennalið KA með fimm marka mun í KA-heimilinu í gærkvöld, 28-33. Þór og Fjölnir eru því jöfn að stigum, bæði með 13 stig úr níu leikjum. Á toppi Grill 66 deildarinnar er hins vegar ungmennalið Fram með 14 stig úr átta leikjum. 

Smellið hér til að skoða stöðutöfluna á vef HSÍ.

Smellið hér til að skoða ítarlega tölfræði leiksins.

Mörk Þórs: Aron Hólm Kristjánsson 8, Sigurður Ringsted Sigurðsson 7, Brynjar Hólm Grétarsson 6, Þormar Sigurðsson 6, Jón Ólafur Þorsteinsson 5, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Friðrik Svavarsson 2, Halldór Yngvi Jónsson 2, Arnþór Gylfi Finnsson 1. Kristján Páll Steinsson varði 13 skot í marki Þórs og Tómas Ingi Gunnarsson þrjú. 

Benedikt Emil Aðalsteinsson var langmarkahæstur Víkinga, skoraði 14 mörk í leiknum, Kristófer Snær Þorgeirsson skoraði sex mörk og Nökkvi Gunnarsson fimm. Markverðir Víkings vörðu samtals 13 skot.