Íþróttir
Ná Þórsarar að hefna fyrir töpin í fyrra?
21.05.2021 kl. 16:10
Þórsarar fagna stórbrotnu marki Fannars Daða Malmquist í glæsilegum sigri á Grindvíkingum í síðustu umferð. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.
Þór sækir Fram heim í dag, í næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Lengjudeildinni. Leikurinn fer fram á gervigrasvelli Fram við Safamýri og hefst klukkan 18.00.
Þórsarar eru með þrjú stig eftir tvo leiki; töpuðu 4:3 fyrir Gróttu á Seltjarnarnesi í fyrstu umferð í fjörugum leik og sigruðu svo Grindvíkinga 4:1 í Boganum, með mjög góðri frammistöðu.
Framarar hafa farið vel stað og unnið báða leikina; fyrst Víking frá Ólafsvík 4:2 á heimavelli og loks ÍBV 2:0 í Eyjum.
Þórsarar töpuðu báðum leikjunum gegn Fram í fyrra; steinlágu 6:1 í Safamýrinni og Fram vann 2:0 á Þórsvellinum. Strákarnir úr Þorpinu mæta án efa í hefndarhug til leiks í dag. Gaman verður að sjá hvort þeir ná að fylgja eftir góðri frammistöðu í síðasta leik.