Þórsarar náðu í stig gegn Grindavík
Þór og Grindavík gerðu 1:1 jafntefli í 10. umferð Lengjudeildar karla í Grindavík í kvöld. Marc Rochester Sörensen gerði mark Þórs í leiknum.
Mikið rok var í Grindavík í dag og hafði það eins og gefur að skilja mikil áhrif á leikinn, langar sendingar gengu erfiðlega hjá báðum liðum og boltinn var mikið utan vallar. Þórsarar léku á móti vindi í fyrri hálfleik en töluvert jafnræði var með liðunum fyrstu 45 mínútur leiksins.
Besta færi fyrri hálfleiksins áttu Grindvíkingar. En þeir komust nálægt því að skora á 34. mínútu leiksins þegar Símon Thassapong átti skot í þverslánna af stuttu færi. Staðan var markalaus þegar Pétur Guðmundsson, dómari leiksins flautaði til hálfleiks
Grindvíkingar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og herjuðu á mark Þórsara. Aron Birkir varði nokkrum sinnum vel í upphafi síðari hálfleiks og heimamenn fóru illa með færin sín. Símon Logi Thassapong fékk frábært færi á 56. mínútu en brást bogalistin.
Þrátt fyrir þetta voru það Þórsarar sem komust yfir í leiknum á 64. mínútu. Marc Rochester Sörensen gerði markið. Aron Ingi Magnússon átti góða sendingu inn í teig á Alexander Má Þorláksson sem lagði boltann snyrtilega niður fyrir Marc sem skoraði með vinstri fótar skoti við markteigshornið.
Eftir þetta reyndu Grindvíkingar hvað þeir gátu til að jafna og eftir mikla pressu uppskáru þeir jöfnunarmark á 86. mínútu. Eftir fyrirgjöf frá hægri kanti barst boltinn á fjærstöngina þar sem Marko Vardic fékk boltann. Hann lék inn á teiginn og náði góðu skoti sem var óverjandi fyrir Aron í markinu og staðan orðin 1:1.
Í uppbótartíma fengu Þórsarar gott færi til að stela sigrinum en Grindvíkingar náðu að bjarga á línu. Lokatölur í Grindavík 1:1 og Þórsarar eru enn að leita að fyrsta útisigri sínum í deildinni. Eftir leikinn er liðið með 14 stig eftir 10 umferðir.
Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna úr leiknum