Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar lágu gegn Skagamönnum

Dagur Vilhelm Ragnarsson með boltann í gær. Hann lék í fjórar mínútur og skoraði átta sig - fyrstu stigin fyrir meistaraflokk Þórs. Til hægri er Páll Nóel Hjálmarsson, vinstra megin við Dag er Skagamaðurinn Daði Már Alfreðsson og númer 11 er Júlíus Duranona. Mynd: Páll Jóhannesson

Skagamenn skoruðu ekki mörkin í gærkvöld – eins og sungið var á árum áður – heldur körfurnar, og stigin urðu að lokum 100, í 14 stiga sigri gegn Þór í 1. deild karla í körfuknattleik. Skagamenn áfram í toppbaráttunni, hafa unnið 11 leiki eins og Ármann og Hamar. Þórsarar sigu niður í 8. sætið við tapið.

Skagamenn voru betra liðið í leiknum, skoruðu sjö fyrstu stigin og leiddu með 14 stiga mun eftir fyrsta leikhlutann þar sem þeir skoruðu tvö stig fyrir hvert eitt hjá Þórsurum. Eftir það varð eiginlega aldrei spenna í leiknum, Skagamenn héldu sínu striki, náðu mest 24ra stiga forystu í fyrri hálfleiknum og aftur í þeim seinni. Inn á milli náðu Þórsarar að minnka muninn niður undir tíu stigin, en komust ekki nær. Skagamenn bitu frá sér þegar þurfti og unnu leikinn að lokum með 100 stigum gegn 86. 

Tim Dalger var að venju stigahæstur í Þórsliðinu, skoraði 20 stig og tók átta fráköst. Honum tókst meðal annars að troða án þess að skora, ef svo má segja, því troðslan endaði með því að boltinn fór aftur upp úr körfunni, ekki niður í gegnum netið eins og þarf til að karfa sé gild, en það kom ekki að sök því Reynir Bjarkan Róbertsson kom aðvífandi, hirti frákastið og skoraði. Kristófer Már Gíslason var stigahæstur í liði ÍA, skoraði einnig 20 stig. Hjá Þórsliðinu var skarð fyrir skildi að Andrius Globys var ekki með vegna meiðsla og þá hefur Baldur Örn Jóhannesson ekki verið með Þór í undanförnum leikjum.

Þegar ljóst var að Þórsarar myndu ekki ná að vinna upp forskot Skagamanna fengu ungir leikmenn að spreyta sig. Dagur Vilhelm Ragnarsson kom við sögu í fjórða leik sínum í meistaraflokki og skoraði sín fyrstu stig. Hann byrjaði á að setja niður tvo þrista eins og hann hefði aldrei gert annað. Þá kom Pétur Áki Stefánsson einnig inn á og spilaði lokamínúturnar, í sjöunda sinn sem hann kemur við sögu í leik með meistaraflokki. Arngrímur Friðrik Alfreðsson var að spila í sínum 14. leik í meistaraflokki og skoraði sjö stig.

  • Gangur leiksins: Þór - ÍA (14-28) (23-28) 37-56  (23-27) (26-17) 86-100
  • Byjunarlið Þórs: Andri Már Jóhannesson, Orri Már Svavarsson, Reynir Bjarkan Róbertsson, Tim Dalger, Veigar Örn Svavarson..
  • Staðan í deildinni
  • Ítarleg tölfræði leiksins

Helsta tölfræði leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar

  • Tim Dalger 20 - 2 - 15 framlagsstig
  • Reynir Bjarkan Róbertsson 15 - 5 - 7
  • Andri Már Jóhannesson 15 - 2 - 2
  • Orri Már Svavarsson 8 - 4 - 2 
  • Dagur Vilhelm Ragnarsson 8 - 2 - 0
  • Arngrímur Friðrik Alfreðsson 7 - 1 - 1
  • Smári Jónsson 5 - 7 - 7 - 15 framlagsstig
  • Veigar Örn Svavarsson 4 - 5 - 1
  • Páll Nóel Hjálmarsson 4 - 3 - 0
  • Pétur Áki Stefánsson 0 - 1 - 0