Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar í gang og burstuðu Þróttara

Bjarni Guðjón Brynjólfsson skorar fimmta mark Þórs og sitt annað gegn Þrótti í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu afar langþráðan sigur í kvöld þegar þeir burstuðu Þróttara úr Vogum 5:0 á heimavelli í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins.

Yfirburðir Þórsara voru miklir gegn botnliðinu. Þeir höfðu ekki fagnað sigri síðan í fyrstu umferð mótsins, eru nú komnir með átta sig eftir níu leiki en eru enn í þriðja neðsta sæti. 

Framherjinn Alexander Már Þorláksson (Árnasonar þjálfara), sem gekk til liðs við Þór frá Fram á dögunum, gerði fyrsta mark leiksins strax á sjöttu mínútu og Bjarni Guðjón Brynjólfsson kom Þór í 2:0 aðeins tveimur mínútum síðar eftir mjög laglegt spil við Alexander. Góð byrjun það hjá framherjanum í fyrsta leik!

Eftir liðlega hálftíma gerði Harley Willard þriðja markið úr víti eftir að brotið var á Kristófer Kristjánssyni og Willard gerði einnig fjórða markið, snemma í seinni hálfleik. Bjarni Guðjón skoraði svo öðru sinni á lokamínútunum þegar hann sendi boltann í netið af stuttu færi eftir fasta fyrirgjöf Sigfúsar Fannars af hægri kanti.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna