Þórsarar höfðu ekki roð við ÍR-ingum í Höllinni
Þórsarar töpuðu illa fyrir ÍR-ingum í kvöld, 108:71, í úrvalsdeild Íslandsmótsins í körfubolta, Subway deildinni. Þeir eru því enn með aðeins tvö stig í neðsta sætinu.
Fyrsti leikhluti viðureignarinnar í Höllinni var jafn í kvöld, Þórsarar höfðu eins stigs forskot að honum loknum, staðan þá 19:18. Í öðrum leikhluta seig hins vegar strax á ógæfuhliðina, ÍR-ingar unnu hann 24:13 svo staðan í hálfleik var 42:32 fyrir gestina úr Breiðholti.
Yfirburðir ÍR-inga voru enn meiri í þriðja leikhluta, sá endaði 36:19 og síðasta fjórðunginn unnu gestirnir 30:20.
Dúi Þór Jónsson var lang atkvæðamestur Þórsara þótt skotnýting hans væri reyndar ekkert sérstök; Dúi gerði 24 stig, tók tvö fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Reggy Keely kom næstur með 13 stig, og fimm fráköst.
Staða Þórsliðsins er orðin gríðarlega erfið og nánast vonlaust að það haldi sér í deildinni.
Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum