Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar geta bjargað sér frá falli í dag

Þórsarar fagna eftir að Alexander Már Þorláksson kom þeim í 3:0 með skondnu hælspyrnumarki í fyrri leiknum gegn Dalvík/Reyni í sumar. Frá vinstri: Árni Elvar Árnason, Alexander Már Þorláksson, Kristófer Kristjánsson og Birkir Heimisson. Mynd: Þórir Tryggvason

Þór fær Dalvík/Reyni í heimsókn í dag í næst síðustu umferð Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn hefst kl. 14.00 og er gríðarlega mikilvægur.

Það hljómar heldur einkennilega miðað við væntingar og spár í vor að Þórsarar eru enn í bullandi fallhættu. Sigur í dag tryggir liðinu sæti áfram í deildinni en tapi Þórsarar og Grótta vinni ÍR á sama tíma verður viðureign Gróttu og Þórs á Seltjarnarnesi um næstu helgi hreinn úrslitaleikur um hvort liðið verður áfram í deildinni.

Þór er með 20 stig eftir jafn marga leiki. Liðið hefur aðeins unnið fjóra leiki í deildinni í sumar, gert átta jafntefli og tapað átta leikjum. Markatalan er 28:37.

Lið Dalvíkur/Reynis er fallið úr deildinni, er neðst með 13 stig.

Grótta hefur 16 stig. Tapi Grótta fyrir ÍR í dag er Þór hólpinn því þrátt fyrir að Grótta ynni Þór í lokaumferðinni fengi liðið aðeins 19 stig.

Aðsókn á heimaleiki Þórs hefur verið dræm undanfarið og stemningin ekki mikil. Ástæða er til að minna áhangendur Þórsliðsins á að það er þegar á móti blæs sem stuðningur er mikilvægastur, þeir fjölmenna því vonandi á þennan síðasta heimaleik sumarsins og hvetja sína menn til sigurs. Oft var þörf en nú er nauðsyn!