Þórsarar fögnuðu sigri í fyrsta leik
Kvennalið Þórs í körfubolta hóf í kvöld leik í efstu deild Íslandsmótsins, Subway deildinni, með sigri á Stjörnunni á heimavelli, 67:58. Liðin komu bæði upp úr 1. deildinni í vor sem leið og þetta var fyrsti leikur kvennaliðs Þórs í efstu deild í 45 ár.
- Skorið eftir leikhlutum: 14:6 – 19:13 – (33:19) – 17:26 – 17:13 – 67:58
Það var belgíska stúlkan Lore Devos sem gerði fyrstu stig Þórs í deildinni og fyrstu stig leiksins með sniðskoti. Devos tók á rás fram völlinn þegar Heiða Hlín Björnsdóttir, fyrirliði Þórs, náði frákasti í vörninni, fékk boltann frá fyrirliðanum og skoraði þessa sögulegu körfu þegar ein mínúta og 20 sekúndur voru liðnar.
Yfirburðir Stelpnanna okkar voru ótrúlegir í fyrsta leikhluta þegar þær skoruðu 14 stig gegn sex, Þórsarar héldu áfram af krafti í öðrum leikhluta og að honum loknum, í hálfleik, var munurinn 14 stig.
Allt annað var að sjá til beggja liða í þriðja leikhluta, Stjarnan minnkaði muninn jafnt og þétt og munurinn var aðeins fimm stig fyrir síðasta leikhluta. Stjarnan jafnaði 54:54 um miðjan fjórða og síðasta leikhluta en leikmenn Þórs voru betri á lokasprettinum.
Hrefna Ottósdóttir var stigahæst í liði Þórs með 17 stig og Madison Anne Sutton tók 21 frákast, þar af 19 í vörn.
Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.
Meira síðar
Lore Devos skorar fyrstu stig Þórs í vetur ein mínúta og 20 sekúndur voru liðnar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Madison Anne Sutton var ákveðin undir körfunni og tók 21 frákast. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Hrefna Ottósdóttir fagnar eftir að hún gerði þriggja stiga körfu þegar níu sekúndur voru eftir og gulltryggði þar með sigurinn. Hún var stigahæst í Þórsliðinu með 17 stig. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson