Þórsarar eru komnir í harða fallbaráttu
Þórsarar töpuðu 3:0 fyrir Grindvíkingum í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, á heimavelli Suðurnesjaliðsins í Reykjavík í kvöld.
Draumur Þórsara um að komast í umspil um sæti í Bestu deildinni á næsta ári er ekki tölfræðilega úr sögunni en vart raunhæfur lengur. Barátta við að halda sæti í deildinni hlýtur að vera mönnum ofar í huga í augnablikinu.
Eftir leiki kvöldsins er Þór aðeins fimm stigum fyrir ofan fallsætin tvö og einu stig á undan Leikni sem er í þriðja neðsta sætinu.
Akureyri.net hafði því miður ekki tök á að fylgjast með leiknum en skv. umfjöllun fótbolta.net var sigurinn afar sanngjarn og Þórsarinn Aron Einar Gunnarsson, sem lék síðasta hluta leiksins, er á sömu skoðun í viðtali við miðilinn.
„Þetta eru vonbrigði. Skortaflan sýnir svolítið rétta mynd af þessum leik,“ sagði Aron Einar eftir leikinn. „Mér fannst þeir fá hættulegri færi í þessum leik þó við höfum skapað nokkur færi og átt nokkra góða spilkafla, en mér fannst þeir samt einhvern veginn alltaf vera með svar við því sem við vorum að gera,“ sagði Aron. Hann sagði vanta herslumun og heppni, hlutirnir væru ekki að falla með Þórsurum „og við þurfum bara að díla við það. Ósköp einfalt. Stutt í næsta leik og það þýðir ekkert að hengja haus of lengi.“
Fallbarátta er staðreynd í augnablikinu. „Við þurfum bara að díla við það eins og menn og standa saman. Næsti leikur er á sunnudaginn gegn Fjölni heima og það er mikilvægur leikur. Við verðum að gjöra svo vel að vinna þann leik.“
Fjölnismenn eru efstir í deildinni. Þórsarar eiga einnig eftir að mæta ÍR, sem er nú í fjórða sæti deildarinnar, og þremur neðstu liðunum, Leikni, Dalvík/Reyni og Gróttu.
Neðstu liðin eru nú þessi:
- Grindavík - 17 leikir - 20 stig
- Þór - 17 leikir - 18 stig
- Leiknir R - 17 leikir - 17 stig
- Dalvík/Reynir - 17 leikir - 13 stig
- Grótta - 17 leikir - 13 stig
Þetta eru leikirnir sem Þór á eftir:
Sunnudag 18. ágúst:
Þór - Fjölnir
Laugardag 24. ágúst:
Leiknir - Þór
Laugardag 31. ágúst:
Þór - ÍR
Sunnudag 8. september:
Þór - Dalvík/Reynir
Laugardag 14. september:
Grótta - Þór