Íþróttir
Þórsarar burstuðu lið Njarðvíkur í Garðabæ
11.02.2024 kl. 16:30
Aron Ingi Magnússon, til vinstri, gerði fyrsta mark Þórs í Lengjubikarkeppninni í ár og Rafael Victor það næsta.
Þórsarar unnu Njarðvíkinga mjög örugglega þegar þeir hófu keppni í 3. riðli A deildar karla í Lengjubikarkeppninni í knattspyrnu í gær. Liðin mættust í íþróttahúsinu Miðgarði í Garðabæ og Þórsarar sigruðu 5:1.
Aron Ingi Magnússon gerði fyrsta mark Þórs strax á níundu mínútu og Rafael Alexandre Romao Victor bætti öðru við um miðjan fyrri hálfleik.
Ragnar Óli Ragnarsson kom Þór í 3:0 á 60. mín., Martin Klein Joensen minnkaði muninn en síðustu tvö mörk Þórs gerðu Kristófer Kristjánsson (65. mín.) og Fannar Daði Malmquist Gíslason (79. mín.).
Tveir leikmenn komu í gær við sögu í fyrsta skipti í meistaraflokksleik með Þór að því er segir á vef félagsins:
- Rafael Alexandre Romao Victor, sem kom til félagsins frá Njarðvík, var í byrjunarliðinu og hafði skorað sitt fyrsta mark fyrir félagið eftir aðeins 20 mínútur.
- Einar Freyr Halldórsson (2008) kom inn á í seinni hálfleik og er það hans fyrsta innkoma í keppnisleik (KSÍ) í meistaraflokki.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.