Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar aftur á sigurbraut – MYNDIR

Þórsarar gleðjast eftir að Alexander Már Þorláksson gerði annað mark þeirra í kvöld. Lengst til vinstri er Ragnar Óli Ragnarsson, sem sendi á Alexander, en Vilhelm Ottó Biering Ottósson og Nikola Kristinn Stojanovic fagna honum. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór vann 3:1 sigur á Ægismönnum í fimmtu umferð Lengjudeildar karla, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, í kvöld. Þetta var fyrsta viðureign liðanna í deildarkeppni síðan árið 1999. Fannar Daði, Alexander Már og Kristófer Kristjánsson gerðu mörk Þórs í leiknum.

Þórsliðið hefur oft spilað betur en spilamennska liðsins dugði til að sigra Ægismenn sem eru nýliðar í deildinni. Eftir sigurinn er Þór í fimmta sæti deildarinnar með 9 stig.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna

_ _ _

ALEXANDER MEÐ SKOT RÉTT FRAMHJÁ
Þórsliðið var alltaf líklegri aðilinn til að skora fyrsta markið. Á 10. mínútu kom fyrsta góða færi leiksins. Eftir hreinsun úr vörn Þórsara hófst kapphlaup frá miðjum vellinum á milli Alexanders Más Þorlákssonar og miðvarðar Ægis. Alexander gerði vel og kom sér fram fyrir varnarmanninn og náði skoti en skotið fór fram hjá markinu.

_ _ _

GÓÐ MARKVARSLA ARONS
Ægismenn komust í skyndisókn á 19. mínútu leiksins og fengu frábæran séns til að komast yfir. Fyrirgjöf frá Ivo Peirreira frá vinstra horni vítateigsins sveif þá yfir alla varnarmenn Þórs og á markteiginn þar sem Hrvoje Tokic, sóknarmaður Ægis, náði að teygja sig í boltann og koma honum að marki. Aron Birkir Stefánsson markvörður Þórs sýndi þá frábær viðbrögð, náði að verja og að lokum koma boltanum frá markinu.

_ _ _

ÍSINN BROTINN, KÆRKOMIÐ MARK FANNARS
Á 42. mínútu kom fyrsta mark leiksins og það voru Þórsarar sem skoruðu. Aron Ingi Magnússon átti þá flott sprett inn í teig gestanna frá hægri og sendi boltann yfir að fjærstönginni. Þar var Fannar Daði Malmquist Gíslason mættur og náði að stýra boltanum í markið. Boltinn hafði viðkomu í varnarmanni á leiðinni inn en í netið fór hann.

Kærkomið mark fyrir Þórsara en liðið hafði þarna verið mun meira með boltann en ekki náð að opna Ægismenn að ráði. Þetta var fyrsta mark Fannars í deildarkeppni síðan í september 2021 en hann missti af öllu tímabilinu í fyrra vegna meiðsla.

_ _ _

ALEXANDER MÁR TVÖFALDAR FORYSTU ÞÓRSARA
Það voru aðeins 33 sekúndur liðnar af seinni hálfleiknum þegar Alexander Már Þorláksson gerði annað mark Þórs. Vilhelm Ottó Biering sem lék vel í vinstri bakverðinum í dag fékk boltann á vinstri kantinum. Hann átti góða sendingu inn í teig þar sem Alexander Már kom sér fram fyrir varnarmann á nærstönginni og skoraði með föstum skalla.

_ _ _

ÆGISMENN MINNKA MUNINN – LEIKURINN SPENNANDI Á NÝ
Seinni hálfleikurinn var afar rólegur. Heimamenn voru mun meira með boltann og fengu sénsa til að bæta við en eins og oft áður í leiknum vantaði herslumuninn. En á 85. mínútu náðu Ægismenn að minnka muninn. Benedikt Gunnarsson kom þá á ferðinni úr bakverðinum og náði að þræða boltann á Ivo Pereira. Hann fór í einfalt þríhyrningsspil við Cristofer Rolin og var kominn í gegn. Ivo renndi svo boltanum fram hjá Aroni í markinu og leikurinn orðinn spennandi á ný. Slappur varnarleikur Þórsara og óþarfa mark að fá á sig.

_ _ _

KRISTÓFER INNSIGLAR SIGUR ÞÓRS
Leikmenn Þórs brugðust þó vel við markinu og gerðu út um leikinn á 89. mínútu. Ægismenn voru þá með marga leikmenn frammi og þrír leikmenn Þórs komust á ferðina gegn tveimur varnarmönnum Ægis. Aron Ingi keyrði með boltann upp völlinn, renndi honum til hægri á Ingimar sem lék inn í teig og sendi boltann fyrir markið á Kristófer Kristjánsson sem gat ekki annað en skorað. Virkilega vel útfærð skyndisókn.