Fara í efni
Íþróttir

Þormóður og Siguróli 2013 og 2022 – MYNDIR

Þormóður Einarsson, Siguróli Sigurðsson og Magnús sonur hans fyrir leikinn gegn Fram 16. júní. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

Fyrsti leikur í efstu deild Íslandsmótsins á nýjum gervigrasvelli KA-manna fór fram á fimmtudaginn var, 16. júní, þegar þeir tóku á móti Frömurum. Mikið var um dýrðir enda fullt tilefni til.

„Þetta er stór stund fyrir okkur KA-menn að spila loks leik í Bestu deildinni á okkar svæði, þessi gamli æfingavöllur er orðinn að okkar keppnisvelli til næstu tveggja ára,“ sagði Vignir Þormóðsson, varaformaður KA, þegar hann ávarpaði viðstadda. „Þetta er hins vegar bara fyrsti áfangi af þremur í uppbyggingu hér á okkar félagssvæði og áætlað er að hefja jarðvegsskipti fyrir nýjum fullkomnun keppnisvelli, stúku og félagsaðstöðu hér að vestan í haust. Vil ég nota tækifæri og þakka bæjaryfirvöldum kærlega fyrir að flýta þessari viðhaldsframkvæmd hér og framsýni og skilning á frekari uppbyggingu næstu árin. Við KA-menn hlökkum til samstarfsins – takk!“

Það voru Þormóður Einarsson, faðir Vignis, og Siguróli Sigurðsson, sem fyrstir spyrntu knetti formlega þennan dag á vellinum, en þeir voru líka á ferðinni 2013 þegar fyrri gervigrasvöllurinn á þessum stað varð að veruleika. Þeir tóku fyrstu skóflustungarnar í janúar og svo fyrstu spyrnurnar þegar völlurinn var tekin í notkun. Sjá myndir að neðan.

Vignir Þormóðsson sagði þrekvirkið að gera þennan völl svo glæsilega úr garði sem raun ber vitni „að mjög miklu leyti að þakka velviljuðum fyrirtækjum, starfsmönnum og stórkostlegum sjálboðaliðum sem hér hafa lagt fram vinnu sína í ómældu magni síðan í mars. Að kaupa og reisa stúku, klára springlerkerfi, byggja risaauglýsingaveggi og yfirhöfuð græja þessa glæsilega aðstöðu er algjört þrekvirki á svo skömmum tíma. Vil ég biðja ykkur áhorfendur góðir að rísa á fætur og gef öllu þessu frábæra fólki gott klapp, TAKK!“ sagði Vignir og bætti við að lokum:

„Um leið og ég vil bjóða vini okkar í gamla stórveldin FRAM velkomið til leiks vil ég segja; KA-menn þetta er okkar heimavöllur, okkar staður, okkar stund; Það er gaman í KA – áfram KA!“

12. janúar 2013 – Siguróli Sigurðsson, til vinstri, og Þormóður Einarsson tóku fyrstu skóflustungarnar að nýjum gervigrasvalli sunnan við KA-heimilið, þegar haldið var upp á 85 ára afmæli KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

19. júní 2013 – Þormóður Einarsson tekur fyrstu opinberu spyrnuna á austurhluta gervigrasvallarins við upphaf leiks b-liða KA og Völsungs í 5. flokki stúlkna. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

19. júní 2013 – Siguróli Sigurðsson tekur fyrstu opinberu spyrnuna á vesturhluta gervigrasvallarins við upphaf leiks a-liða KA og Völsungs í 5. flokki stúlkna. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson