Fara í efni
Íþróttir

Þór/KA upp í 2. sæti Bestu deildarinnar

Fimm sinnum fögnuðu þær marki og fylltu Bogann af gleði. Hér samgleðjast Þór/KA-stelpurnar Agnesi Birtu Stefánsdóttur yfir fyrsta markinu. Myndir: Akureyri.net.

Þór/KA er ekki lengur að elta toppliðin eins og það hefur verið orðað í fjölmiðlum heldur er liðið eitt af toppliðunum. Úrslit leikja í 6. umferðinni, sigur Þórs/KA á Tindastóli og tap Vals fyrir Breiðabliki, þýða að Þór/KA er nú í 2. sæti með jafnmörg stig og Íslandsmeistararnir en betri markamun.

Þór/KA átti ekki í neinum vandræðum með gestina frá Sauðárkróki í kvöld. Yfirburðirnir í fyrri hálfleiknum voru slíkir að mörkin hefðu hæglega getað orðið fleiri, en urðu þó fjögur. Seinni hálfleikurinn var rólegri, en Þór/KA þó með öll tök á leiknum. Stundum var eins og leikmenn væru að flýta sér aðeins um of við að skora næsta mark og ýmislegt sem gekk ekki jafn vel upp og í fyrri hálfleiknum. 

1-0
Agnes Birta Stefánsdóttir náði forystunni fyrir Þór/KA eftir tæplega stundarfjórðungs leik, með glæsilegum skalla eftir hornspyrnu Karenar Maríu Sigurgeirsdóttur. Skömmu áður hafði Monica Wilhelm varið glæsilega frá Huldu Ósk Jónsdóttur úr dauðafæri. Annað mark Agnesar Birtu í efstu deild, ekki fyrsta eins og tilkynnt var á leiknum. 


Agnes Birta Stefánsdóttir skallar og skorar. Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir klár í skallann einnig ef Agnes Birta hefði klikkað. Mynd: Akureyri.net.

2-0
Innan við fimm mínútum síðar tvöfaldaði Karen María Sigurgeirsdóttir forystuna þegar hún fékk langa sendingu inn fyrir vörnina upp hægri kantinn frá Huldu Björg Hannesdóttur. Karen María brunaði einfaldlega áfram upp hægra megin, inn í teig og skoraði af öryggi. Markið hafði aukaafleiðingarnar því Konráð Freyr Sigurðsson, einn af þjálfurum Tindastóls, fékk reisupassann eftir mótmæli þar sem hann vildi meina að um rangstöðu hefði verið að ræða.

3-0
Þór/KA hafði mikla yfirburði í fyrri hálfleiknum, stelpurnar sóttu án afláts og sköpuðu sér fjölda færa. Eitthvað hlaut að láta undan og eftir rúmlega háfltíma leik var komið að annarri úr varnarlínu liðsins að skora, en það gerði Iðunn Rán Gunnarsdóttir af stuttu færi eftir hornspyrnu og skalla frá Kimberley Dóru Hjálmarsdóttur sem Monica Wilhelm varði. Fyrsta mark Iðunnar í efstu deild.


Þær skoruðu báðar sitt fyrsta mark í efstu deild, Emelía Ósk Krüger og Iðunn Rán Gunnarsdóttir. Mynd: Akureyri.net.

4-0
Á lokaandartökum fyrri hálfleiks kom fallegasta mark leiksins, sleggja frá Söndru Maríu Jessen sem fékk langa sendingu inn fyrir vörnina frá Iðunni Rán, stakk sér fram fyrir varnarmenn og skoraði með stórglæsilegu skoti upp í markhornið hægra megin. Dómari leiksins flautaði fyrri hálfleikinn af á meðan leikmenn Þórs/KA fögnuðu marki Söndru. Þetta er 99. mark hennar í efstu deild á Íslandi. Hún fékk nokkur þokkaleg tækifæri til að koma með 100. markið, en það bíður betri tíma.

5-0 - Seinni hálfleikurinn var heldur daufari en sá fyrri, en samt allmörg færi. Það var þó ekki fyrr en innan við tíu mínútur voru eftir af leiknum sem fimmta markið kom og önnur að skora sitt fyrsta mark í efstu deild. Emelía Ósk Krüger skoraði þá með skalla eftir fyrirgjöf frá Sonju Björgu Sigurðardóttur sem stuttu áður hafði sjálf verið í dauðafæri.


Sonja Björg Sigurðardóttir spilaði í kvöld sinn þriðja leik í efstu deild og lagði upp fimmta mark liðsins fyrir uppeldissystur sinn í fótboltanum, Emelíu Ósk Krüger. Þær komu saman inn á sem varamenn á 79. mínútu og þremur mínútum síðar hafði Emelía Ósk skorað sitt fyrsta mark í efstu deild eftir þessa fyrirgjöf frá Sonju.


Boltinn í markinu, Emelía Ósk fagnar og lítur þakklát um öxl á Sonju Björgu sem lagði upp markið. Mynd: Akureyri.net.

Það er í raun erfitt að taka einhverja eina eða tvær út úr liði Þórs/KA og segja þær hafa verið bestu menn liðsins. Allt liðið átti góðan leik, samspilið, pressan og stemningin í fyrri hálfleiknum var til fyrirmyndar. Liðsheildin einstök um þessar mundir og stemningin í hópnum frábær. Þrátt fyrir heldur slappari seinni hálfleik verður það ekki tekið af Þór/KA-stelpum að þær áttu sigurinn fyllilega skilið og hann hefði hæglega getað orðið stærri. 

Með sigrinum klifraði Þór/KA upp um eitt sæti, fór upp fyrir Íslandsmeistara Vals, með jafnmörg stig en betri markamun, en fyrr í kvöld vann Breiðablik sigur á Val í uppgjöri toppliðanna. Kópavogsliðið situr því eitt á toppi Bestu deildarinnar með fullt hús stiga, 18 stig eftir sex umferðir, en Þór/KA og Valur eru með 15. Blikar fá reyndar aftur toppslag í næstu umferð því fyrsti leikur liðsins eftir landsleikjahléið sem nú tekur við er einmitt gegn Þór/KA á Akureyri þann 8. júní.

Smellið hér til að lesa leikskýrsluna.