Fara í efni
Íþróttir

Þór/KA sækir topplið Vals heim í dag

Þór/KA hefur keppni á ný í dag í efstu deild Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu, Bestu deildinni, eftir langt hlé vegna Evrópumótsins í Englandi. Stelpurnar okkar sækja þá topplið Vals heim að Hlíðarenda. Flautað verður til leiks á Origo vellinum klukkan 17.30.

María Catharina Ólafsdóttir Gros verður með Þór/KA á ný í dag. Hún sneri heim á ný á dögunum eftir að hafa leikið með Glasgow Celtic í Skotlandi síðan í fyrra.

Þór/KA er eina liðið sem hefur náð að sigra Val í deildinni í sumar. Liðin mættust 3. maí í Boganum í 2. umferð Íslandsmótsins, Sandra María Jessen kom Þór/KA yfir strax á sjöttu mínútu, Elín Metta Jensen jafnaði en Margrét Árnadóttir gerði sigurmarkið á 75. mínútu. Þór/KA hefur unnið þrjá leiki í sumar, gert eitt jafntefli en tapað sex leikjum og er með 10 stig í þriðja neðsta sæti. Valur er hins vegar í efsta sæti með 26 stig að loknum 11 leikjum.

Fróðlegt verður að sjá hvernig lið Þórs/KA mætir til leiks en rúmur einn og hálfur mánuður er frá síðasta leik liðsins í deildinni. Valur hefur hins vegar þegar spilað einu sinni eftir EM, gerði 1:1 jafntefli við Stjörnuna á heimavelli í síðustu viku.