Þór/KA með útileik gegn Breiðabliki í dag
Þór/KA sækir Breiðablik heim á Kópavogsvöll í 16. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í dag kl. 16.
Þór/KA er í 3. sæti deildarinnar og hefur raunar haldið því sæti frá því í byrjun maí, eftir 3. umferð mótsins, nema hvað stelpurnar hoppuðu í eitt skipti upp í 2. sætið. Breiðablik hefur verið í baráttu við Val um toppsætið, en Valur hrifsaði toppsætið með sigri á Breiðabliki í 15. umferðinni. Valur er með 43 stig að loknum 16 leikjum, en Breiðablik 39 stig að loknum 15 leikjum. Þór/KA þarf auðvitað einnig á stigunum þremur að halda til að halda í 3. sætið og vera áfram í humátt á eftir toppliðunum. Þór/KA er með 28 stig í 3. sætinu, en Víkingar eru með 23 stig og eiga útileik gegn Keflvíkingum í dag.
Eftir leiki dagsins eru tvær umferðir eftir af hefðbundnu 18 umferða deildinni, áður en henni verður tvískipt í efri og neðri hluta. Sex lið spila áfram í efri hlutanum og fjögur í þeim neðri. Þór/KA hefur þegar tryggt sér sæti í efri hlutanum og spilar því fimm leiki til viðbótar á tímabilinu 31. ágúst til 6. október. Baráttan um 3. sætið snýst meðal annars um það að liðin í þremur efstu sætunum fá þrjá heimaleiki af þessum fimm sem bætast við.
Breiðablik hafði betur í fyrri leik liðanna í Bestu deildinni í sumar, 3-0, á Akureyri. Liðin mættust einnig í undanúrslitum Mjólkurbikarkeppninnar og vann Breiðablik þann leik einnig, 2-1, eftir framlengingu.
Á vef félagsins má finna ítarlegri upplýsingar, meðal annars um innbyrðis viðureignir og konur sem hafa spilað með báðum félögunum - sjá hér.