Fara í efni
Íþróttir

Þór/KA í undanúrslit bikarkeppninnar

Sandra María Jessen fagnar einu fjögurra marka sinna í 4:0 sigri á FH í Bestu deildinni í Hafnarfirði fyrr í sumar. Hún gerði eina mark leiksins í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA varð í dag fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Mjólkurbikarkeppni kvenna í knattspyrnu með 1:0 sigri á FH á Kaplakrikavelli.

Það var Sandra María Jessen sem gerði eina mark leiksins. Hún hélt þar með uppteknum hætti; að hrella leikmenn FH í Hafnarfirði, því í deildarleik liðanna þar í bæ fyrr í sumar gerði hún öll fjögur mörkin í 4:0 sigri.

Sandra María tók þátt í tveimur landsleikjum á dögunum, á meðan hlé var gert á Bestu deildinni, og byrjaði á bekk varamanna í dag. Jóhann þjálfari vill áreiðanlega passa að álagið verði ekki of mikið, og svo er auðvitað gott að hafa besta manninn til leiks á bekknum þegar mótherjinn er farinn að þreytast.

Hvort lið var nálægt því að skora einu sinni í fyrri hálfleik en annars var leikhlutinn fremur bragðdaufur.

Þegar liðin komu út á grasið á ný, til seinni hálfleiks hafði Sandra María leyst Amalíu Árnadóttur af hólmi og óhætt er að segja að markadrottningin hafi verið snögg að setja mark sitt á leikinn.

Aðeins voru 2 mínútur og 8 sekúndur liðnar af seinni hálfleik þegar knötturinn söng í neti FH-marksins. Hulda Ósk Jónsdóttir og Lara Ivanusa léku laglega á milli sín í teignum, Hulda sendi á Söndru Maríu sem hafði komið sér í góða stöðu og skoraði af öryggi. Laglegt mark.

Skömmu síðar átti Sandra skot í utanverða stöngina en í næstu sókn eftir það fengu FH-ingar vítaspyrnu. Dómarinn taldi Lidija Kulis brjóta á FH-ingnum  Breukelen Woodard og benti umsvifalaust á vítapunktinn – sem virtist að vísu afar strangur dómur, en ekki tjóaði að deila við dómarann frekar en áður í knattspyrnusögunni. Konur eru skynsamari en margur karlpeningurinn og reyndu þess vegna ekki að malda í móinn.

Það var Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir sem tók vítið en Shelby Money sá við henni og varði! Þar með reyndist hún hin formlega hetja Þórs/KA, ásamt Söndru Maríu, og Stelpurnar okkar fögnuðu sigrinum innilega í leikslok. Þær verða því í pottinum þegar dregið verður í undanúrslitum og eru þar með aðeins einum leik frá úrslitaleiknum á Laugardalsvelli.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Hinir þrír leikir átta liða úrslitanna fara fram í kvöld:

  • Breiðablik - Keflavík
  • Grindavík - Valur
  • Afturelding - Þróttur R