Þór/KA í Garðabæ í dag – Þórsarar í Grafarvogi
Tvö af knattspyrnuliðum Akureyrar leika á höfuðborgarsvæðinu í dag, Þór/KA mætir Stjörnunni í Garðabæ í Bestu deild kvenna og karlalið Þórs heimsækir lið Fjölnis í Grafarvogi í Lengjudeildinni.
Báðir leikirnir hefjast kl. 16.00
- Stjarnan – Þór/KA
Þetta er þriðji leikur Þórs/KA á átta dögum og annar á útivelli. Sjö umferðum er lokið í Bestu deild kvenna og er Þór/KA í þriðja sæti með 15 stig, hefur unnið fimm leiki og tapað tveimur – fyrir efstu liðunum, Breiðabliki og Val.
Stjarnan er í fimmta sæti deildarinnar með níu stig, hefur unnið þrjá leiki, en tapað fjórum.
Leikur Stjörnunnar og Þórs/KA verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport
- Fjölnir – Þór
Þórsarar, sem eiga fimm leiki að baki í Lengjudeildinni, eru í áttunda sæti með sex stig; hafa unnið einn leik, gert þrjú jafntefli og tapað einum. Fjölnir er í öðru sæti deildarinnar, hefur 14 stig að sex leikjum loknum.
Með sigri í leikjunum tveimur sem Þórsarar eiga inni, gegn Fjölni í dag og botnliði Leiknis á heimavelli um næstu helgi, yrðu Þórsarar í hópi efstu liða.
Síðasti leikur Þórsstrákanna var gegn Bestu deildar liði Stjörnunnar í bikarkeppninni á heimavelli. Sú rimma tapaðist 1:0 á grátlegan hátt á síðustu sekúndunum. Þórsarar fengu betri færi en Garðbæingar í leiknum og hefðu átt skilið að komast í undanúrslit keppninnar en hafa vonandi jafnað sig á vonbrigðunum og mæta tvíefldir til leiks í dag.