Þórir Tryggvason sæmdur gullmerki ÍBA
Þórir Tryggvason ljósmyndari var sæmdur gullmerki Íþróttabandalags Akureyrar á formannafundi bandalagsins í vikunni fyrir óeigingjart og ómetanlegt starf í þágu íþrótta og í kringum íþróttaviðburðu á svæðinu, eins og segir í tilkynningu. „Hann hefur tekið myndir af flestum okkar íþróttaviðburðum síðustu 25 árin,“ segir þar.
„Þórir Tryggvason fæddist á Akureyri 29. apríl árið 1956. Sem barn æfði Þórir fótbolta og handbolta með Þór enda var hann fæddur inn í Þórsfjölskyldu þar sem móðuramma hans var ein af stofnfélögum Þórs ung að árum. Seinna meir eða á unglingsárunum fiktaði hann í hestamennsku og gerðist félagi í hestamannafélaginu Létti. Þar næst kviknaði bílaáhuginn og varð hann félagsmaður í Bílaklúbbi Akureyrar og starfaði með honum fyrstu ár klúbbsins.
Þegar börnin Þóris fóru að stunda íþróttir með KA þá fylgdi hann þeim vel eftir og kom meðal annars að stofnun fyrsta unglingaráðs handknattleiksdeildar KA ásamt fleirum og var í því um árabil.“
Fyrsta íþróttamynd Þóris sem birtist obinerlega, í Vikudegi vorið 1998. KA-maðurinn Karim Yala í Evrópuleik í handbolta.
„Ljósmyndaáhuginn kviknaði fljótt og segja má að Þorleifur Ananíasson, Leibbi, hafi startað myndagleðinni hjá Þóri en hann vissi að hann væri að taka myndir fyrir unglingastarfið í handboltanum hjá KA og bað hann að mynda fyrir sig íþróttir til að setja í [Vikudag] með sinni umfjöllun. Fyrsta íþróttamynd Þóris birtist svo í Vikudegi, sem nú er Vikublaðið, vorið 1998. Myndin var tekin á Evrópuleik sem KA lék hér heima. Hann hefur einnig tekið myndir af allskonar áhugamálum og á t.d. myndir frá öllum 17. júní bílasýningum frá upphafi.“
Þórir hefur verið að mynda í um það bil aldarfjórðung, á allskonar íþróttaviðburðum sem fram hafa farið á Akureyri og er gera má ráð fyrir að hann hafi tekið um eina og hálfa milljón ljósmynda!
Akureyri.net á Þóri Tryggvasyni mikið að þakka því myndir hans hafa reglulega birst á vefnum í gegnum tíðina, bæði eftir að núverandi eigendur endurreistu vefinn haustið 2020 og á árum áður. Til hamingju með gullið, Þórir!
Verði þér að góðu! Þórir Tryggvason á „sínum stað“ – að mynda knattspyrnuleik á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson