Íþróttir
Þórður Tandri snýr aftur heim til Þórs
01.07.2024 kl. 13:30
Páll Pálsson formaður handknattleiksdeildar Þórs og Þórður Tandri Ásgeirsson eftir að hann skrifaði undir samning við deildina.
Línumaðurinn öflugi, Þórður Tandri Ágústsson, hefur samið við handknattleiksdeild Þórs og snýr því á fornar slóðir eftir þriggja ára dvöl hjá Stjörnunni í Garðabæ. Þórsarar halda þar með áfram að styrkja handboltalið sitt fyrir átök næsta vetrar í Grill66 deildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins.
Þórsliðið var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í efstu deild í vor þegar það tapaði með minnsta mun fyrir Fjölni í úrslitaeinvígi.
- Markverðirnir Kristján Páll Steinsson og Steinar Ingi Árnason skrifuðu báðir undir nýjan samning við handknattleiksdeild Þórs á dögunum og leika áfram með Þórsliðinu næsta vetur. Kristján Páll var aðalmarkvörður liðsins sl. vetur, lék mjög vel og var frábær í úrslitaeinvíginu við Fjölni.
- Áður höfðu tveir gamlir Þórsarar, sem snúa heim frá útlöndum, samið við félagið: hornamaðurinn Oddur Gretarsson sem leikið hefur í Þýskalandi í rúman áratug og örvhenta skyttan Hafþór Vignisson sem undanfarin ár hefur leikið í Þýskalandi og Noregi.
- Þá má geta þess að stórskyttan og varnarjaxlinn Brynjar Hólm Grétarsson vann til verðlauna á dögunum; þá var tilkynnt að hann hefði verið kosinn besti varnarmaður Grill66 deildarinnar í vetur sem leið.
Páll Pálsson og Kristján Páll Steinsson handsala samning á dögunum.
Páll Pálsson og Steinar Ingi Árnason eftir undirritun samnings í Hamri nýverið.
Brynjar Hólm Grétarsson - besti varnarmaður Grill66 deildarinnar í vetur.