Fara í efni
Íþróttir

Þór vinnur í kvöld – en verður það sá „rétti“?

Hvorugt liðið sópar hinu út úr úrslitakeppninni, eins og það er kallað þegar annað hvort liðið vinnur alla leikina. Andonis Globys var hins vegar flinkur með moppuna á síðasta leik. Deon Dedrick Basile og Landry Edi fylgjast með honum, Júlíus Orri Ágústsson lengst til vinstri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þriðji leikur „okkar“ Þórsara og Þórsara úr Þorlákshöfn í úrslitakeppni Íslandsmótsins í körfubolta, Domino's deildarinnar, verður fyrir sunnan í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Liðin hafa unnið sitt hvorn leikinn.

Athyglisvert er að útiliðið vann í bæði skiptin þegar nafnarnir mættust í deildinni í vetur; Þorlákshafnar-Þórsarar unnu á Akureyri snemma í febrúar, 91:75 en Strákarnir okkar sigruðu í Þorlákshöfn, 108:103, og gulltryggðu þá sæti í deildinni næsta vetur með frábærri frammistöðu, í næst síðustu umferð deildarkeppninnar.

Heimamenn unnu fyrstu viðureignina í úrslitakeppninni í Þorlákshöfn, 95:76 en Akureyringar þá næstu í Íþróttahöllinni, 93:79. Öruggur sigur í bæði skiptin og tölurnar nánast þær sömu. Því verður mjög áhugavert að sjá hvernig leikur kvöldsins þróast; hvort heimavöllurinn reynist heilladrjúgur eins og til þessa í úrslitakeppninni – eða ekki, líkt og í deildarleikjunum!

Leikstjórnandi Akureyringa, Dedrick Deon Basile, var í banni í fyrsta leik úrslitakeppninnar og sárt saknað, en miðherji Þorlákshafnarbúa, Litháinn Adomas Drungilas, lýkur í dag þriggja leikja banni. Sigurlíkur norðanmanna eru meiri þegar þeir þurfa ekki að glíma við hann, þótt það hafi reyndar ekki tekist í fyrsta leik úrslitakeppninnar en sigur á útivelli í dag yrði Akureyrar-Þórsurum frábært veganesti fyrir framhaldið.

Þrjá sigra þarf til þess að komast áfram í fjögurra liða úrslit.

Frammistaða lykilmanna liðanna að meðaltali í öllum leikjum vetrarins:

Miðherjarnir:

  • Ivan Aurrecoechea Alcolado (Spánverji, 25 ára) Þór Ak. – 19,7 stig – 11 fráköst – 1,5 stoðsending – 22,8 framlagsstig
  • Adomas Drungilas (Lithái, 30 ára) Þór Þ. – 14,1 stig – 9,1 frákast – 4,6 stoðsendingar – 22,1 framlagsstig

Leikstjórnendurnir:

  • Dedrick Deon Basile (Bandaríkjamaður, 26 ára) Þór Ak. – 19,5 stig – 4,6 fráköst – 8,7 stoðsendingar – 23,8 stig
  • Larry Thomas (Bandaríkjamaður, 27 ára) Þór Þ. – 20,3 stig – 5,3 fráköst – 5,4 stoðsendingar, framlag 22,3

Meðaltal í leikjum Þórs og Þórs í vetur:

  • Dedrick Deon Basile – 24 stig – 5 fráköst – 9 stoðsendingar – 28,3 framlagsstig
  • Larry Thomas – 22, 8 stig – 6,3 fráköst – 5 stoðsendingar – 24,5 framlagsstig
  • Ivan Aurrecoechea Alcolado – 18 stig – 9,3 fráköst – 2,5 stoðsendingar – 22 framlagsstig
  • Adomas Drungilas – 11 stig – 9 fráköst – 4 stoðsendingar – 20,5 framlagsstig

Smellið hér til að sjá hverjir eru bestir af Strákunum okkar í öllum tölfræðiþáttum.

Smellið hér til að sjá hverjir eru bestir hjá Þór í Þorlákshöfn í öllum tölfræðiþáttum.

Dedrick Deon Basile og Ivan Aurrecoechea Alcolado í vörn gegn Larry Thomas í síðasta leik Þórs-liðanna á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Júlíus Orri Ágústsson – Ohouo Guy Landri Edi – Srdjan Stojanovic. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.