Þór vinnur í kvöld – en verður það sá „rétti“?
Þriðji leikur „okkar“ Þórsara og Þórsara úr Þorlákshöfn í úrslitakeppni Íslandsmótsins í körfubolta, Domino's deildarinnar, verður fyrir sunnan í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Liðin hafa unnið sitt hvorn leikinn.
Athyglisvert er að útiliðið vann í bæði skiptin þegar nafnarnir mættust í deildinni í vetur; Þorlákshafnar-Þórsarar unnu á Akureyri snemma í febrúar, 91:75 en Strákarnir okkar sigruðu í Þorlákshöfn, 108:103, og gulltryggðu þá sæti í deildinni næsta vetur með frábærri frammistöðu, í næst síðustu umferð deildarkeppninnar.
Heimamenn unnu fyrstu viðureignina í úrslitakeppninni í Þorlákshöfn, 95:76 en Akureyringar þá næstu í Íþróttahöllinni, 93:79. Öruggur sigur í bæði skiptin og tölurnar nánast þær sömu. Því verður mjög áhugavert að sjá hvernig leikur kvöldsins þróast; hvort heimavöllurinn reynist heilladrjúgur eins og til þessa í úrslitakeppninni – eða ekki, líkt og í deildarleikjunum!
Leikstjórnandi Akureyringa, Dedrick Deon Basile, var í banni í fyrsta leik úrslitakeppninnar og sárt saknað, en miðherji Þorlákshafnarbúa, Litháinn Adomas Drungilas, lýkur í dag þriggja leikja banni. Sigurlíkur norðanmanna eru meiri þegar þeir þurfa ekki að glíma við hann, þótt það hafi reyndar ekki tekist í fyrsta leik úrslitakeppninnar en sigur á útivelli í dag yrði Akureyrar-Þórsurum frábært veganesti fyrir framhaldið.
Þrjá sigra þarf til þess að komast áfram í fjögurra liða úrslit.
Frammistaða lykilmanna liðanna að meðaltali í öllum leikjum vetrarins:
Miðherjarnir:
- Ivan Aurrecoechea Alcolado (Spánverji, 25 ára) Þór Ak. – 19,7 stig – 11 fráköst – 1,5 stoðsending – 22,8 framlagsstig
- Adomas Drungilas (Lithái, 30 ára) Þór Þ. – 14,1 stig – 9,1 frákast – 4,6 stoðsendingar – 22,1 framlagsstig
Leikstjórnendurnir:
- Dedrick Deon Basile (Bandaríkjamaður, 26 ára) Þór Ak. – 19,5 stig – 4,6 fráköst – 8,7 stoðsendingar – 23,8 stig
- Larry Thomas (Bandaríkjamaður, 27 ára) Þór Þ. – 20,3 stig – 5,3 fráköst – 5,4 stoðsendingar, framlag 22,3
Meðaltal í leikjum Þórs og Þórs í vetur:
- Dedrick Deon Basile – 24 stig – 5 fráköst – 9 stoðsendingar – 28,3 framlagsstig
- Larry Thomas – 22, 8 stig – 6,3 fráköst – 5 stoðsendingar – 24,5 framlagsstig
- Ivan Aurrecoechea Alcolado – 18 stig – 9,3 fráköst – 2,5 stoðsendingar – 22 framlagsstig
- Adomas Drungilas – 11 stig – 9 fráköst – 4 stoðsendingar – 20,5 framlagsstig
Smellið hér til að sjá hverjir eru bestir af Strákunum okkar í öllum tölfræðiþáttum.
Smellið hér til að sjá hverjir eru bestir hjá Þór í Þorlákshöfn í öllum tölfræðiþáttum.
Dedrick Deon Basile og Ivan Aurrecoechea Alcolado í vörn gegn Larry Thomas í síðasta leik Þórs-liðanna á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Júlíus Orri Ágústsson – Ohouo Guy Landri Edi – Srdjan Stojanovic. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.