Þór vann Ægi en KA steinlá í Garðabæ
Akureyrarliðin Þór og KA áttu ólíku gengi að fagna á Íslandsmótinu í knattspyrnu í kvöld. Þórsarar fögnuðu sigri á heimavelli en KA-menn steinlágu í Garðabæ.
- Þórsarar tóku á móti Ægismönnum á Þórsvelli í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins, og unnu 3:1 sigur.
Fannar Daði Malmquist skoraði fyrsta mark leiksins þegar 42 mínútur voru liðnar. Alexander Már Þorláksson bætti við öðru marki þegar einungis 30 sekúndur voru liðnar af seinni hálfleik. Ægismenn minnkuðu muninn á 86. mínútu en Kristófer Kristjánsson skoraði þriðja mark Þórs þremur mínútum seinna og þar við sat. Mikilvægur sigur Þórsara sem eru eftir leikinn í fimmta sæti deildarinnar með níu stig.
- Á sama tíma tapaði KA 4:0 fyrir Stjörnunni í Garðabæ.
Eggert Guðmundsson kom Stjörnumönnum yfir eftir um hálftíma leik og þannig var staðan í hálfleik. Stjörnumenn bættu við þremur mörkum í seinni hálfleik þar sem Ísak Andri, Hilmar Árni og Emil Atlason gerðu mörk Garðbæinga. Þetta er þriðji leikurinn af seinustu fimm KA sem liðið tapar 4:0. Eftir leikinn er liðið í fimmta sæti deildarinnar með 14 stig eftir 11 umferðir.
Nánar verður fjallað um leikina hér á eftir