Þór tekur á móti nafna sínum úr Þorlákshöfn
Þór tekur á móti nafna sínum frá Þorlákshöfn í Domino's deildinni í körfubolta í íþróttahöllinni í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18.15 verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Þar af leiðandi verður ekki hægt að fylgjast með honum á Þór TV.
Heimamenn eru með sex stig í níunda sæti deildarinnar; hafa unnið frækna sigra undanfarið á heimavelli, gegn Tindastóli, Val og Njarðvík. Þórsarar tóku Njarðvíkinga nánast í bakaríið, en töpuðu illa í næsta leik þar á undan, fyrir Hetti á Egilsstöðum. Vonandi ná þeir að sýna sitt rétta andlit í kvöld því án efa verður við ramman reip að draga. Nafni úr Þorlákshöfn hefur nefnilega náð frábærum árangur á útivelli í vetur, hefur unnið þrjá af fjórum, og er í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig.
Engir áhorfendur eru leyfðir frekar en undanfarið en leikurinn sýndur í sjónvarpinu sem fyrr segir. Þórsarar biðla til stuðningsmanna að styrkja við körfuknattleiksdeildina með því að kaupa „miða“ á leikinn og eru þar nokkrir möguleikar í boði. Sjá nánar hér neðst í frétt á heimasíðu Þórs.