Þór slapp með skrekkinn og trónir á toppnum
Kvennalið Þórs í körfubolta er komið á topp 1. deildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins, eftir nauman sigur á liði Hamars/Þórs í Íþróttahöllinni á Akureyri í gærkvöldi. Lokatölur urðu 76:74 eftir að Stelpurnar okkar höfðu 22 stiga forystu í hálfleik, 50:28.
- Skorið eftir leikhlutum: 20:14 – 30:14 (50:28) – 18:22 – 8:24 – 76:74
Eftir sigurinn eru Þórsarar einir í efsta sæti deildarinnar, með 32 stig eftir 20 leiki. Stjarnan er í öðru sæti með 30 stig en á tvo leiki til góða.
Fyrirkomulagið er þannig í deildinni að fjögur efstu liðin leika um eitt sæti í efstu deild að ári; lið 1 mætir liði 4 og liðin í 2. og 3. sæta mætast. Sigurliðin úr þeim viðureignum mætast í úrslitarimmu um sæti í efstu deild, Subway deildinni.
Þórsarar lék mjög vel í fyrri hálfleik í gær og allt virtist stefna í stórsigur. Í seinni hálfleik hallaði hins vegar verulega undan fæti og leikur liðsins hrundi bókstaflega í fjórða og síðasta leikhlutanum. Engu var líkara en lok hefði þá verið sett ofan á körfuna sem Þórsarar léku á því boltinn rataði sjaldnast rétta leið og liðið gerði ekki nema átta stig á þessum síðustu 10 mínútum!
En sigur hafðist þótt naumur væri og stelpurnar fögnuðu sigri í sjöunda leiknum í röð.
Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.
Smellið hér til að sjá ítarlega umfjöllun á heimasíðu Þórs.