Þór skoraði loksins en tapaði enn
Þórsarar töpuðu 2:1 fyrir Selfyssingum í síðasta heimaleik sumarsins í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins. Þeir eru því enn 20 stig í þriðja neðsta sæti fyrir lokaumferðinni, en eru endanlega öruggir með að halda sér í deildinni þar sem Þróttarar töpuðu í dag.
Helst bar til tíðinda í dag að Þór skoraði. Eftir að gestirnir komust í 2:0 gerði Ólafur Aron Pétursson glæsilegt mark með skoti beint úr aukaspyrnu á 45. mínútu - en Þórsarar höfðu ekki skorað í sjö deildarleikjum í röð þar til í dag.
Jóhann Helgi Hannesson var annars maður dagsins; þessi markahæsti leikmaður Þórs frá upphafi fékk blómvönd fyrir leik í tilefni þess að þetta er síðast leikur hans með Þór á heimavelli. Aðeins er einn leikur eftir, gegn Þrótti á útivelli, og skórnir fara upp í hillu í haust. Jóhann Helgi kom boltanum tvisvar í mark Selfyssinga í leiknum en hvorugt var talið; dæmt var brot á einn samherja Jóhanns þegar hann skallaði boltann í netið í seinni hálfleik og á lokaandartökunum töldu margir að hann hefði jafnað, en þá var framherjinn dæmdur rangstæður. Það var ansi tæpt, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.