Fara í efni
Íþróttir

Þór sigraði Þrótt í miklum markaleik

Nikola Kristinn Stojanovic, til vinstri, er kominn á kreik á ný eftir slæm meiðsli og Ýmir Már Geirsson lék í fyrsta skipti með Þór. Þeir gerðu sitt markið hvor í leiknum.

Þórsarar unnu Þrótt 4:3 í gær þegar liðin mættust í Egilshöll í Lengjubikarkeppninni í knattspyrnu. Þetta var síðasti leikur 4. riðils A-deildar og Þórsarar ljúka keppni með sex stig úr fimm leikjum.

Leikurinn hófst með látum því Alexander Már Þorláksson kom Þór yfir strax á þriðju mínútu, Guðmundur Axel Hilmarsson jafnaði á 15. mín., Alexander skoraði aftur á 18. mín. og Guðmundru jafnaði á ný á 28. mín.

Þróttur tók forystu strax í upphafi síðari hálfleiks en Ýmir Már Geirsson jafnaði fyrir Þór á 80. mín., fimm mín. eftir að hann kom inn á í fyrsta leiknum með Þór. Það var svo Nikola Kristinn Stojanovic, sem kom inn á um leið og Ýmir, sem gerði sigurmarkið á 82. mín. Þetta var fyrsti leikur Nikola í mótinu en hann meiddist mjög alvarlega í fyrrasumar.

https://www.ksi.is/mot/leikskyrsla/?leikur=595218