Fara í efni
Íþróttir

Þór fær Víking frá Ólafsvík í heimsókn

Daði Freyr Arnarsson hefur leikið allar mínútur Þórs á Íslandsmótinu í sumar - Fannar Daði Malmquist Gíslason er markahæstur Þórsara með fimm mörk í deildinni. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Þór fær Víking úr Ólafsvík í heimsókn í dag í næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Lengjudeildinni. Leikurinn hefst klukkan 16.00 á Þórsvellinum (Salt Pay vellinum).

Þórsarar eru í áttunda sæti með 19 stig að loknum 15 leikjum en Víkingar eru á botninum með aðeins tvö stig úr 14 leikjum. Annað stiganna fengu Víkingar eftir 2:2 jafntefli við Þór á heimavelli í byrjun júní, hitt eftir 2:2 jafntefli við Grindavík, einnig á heimavelli, snemma í júlí.

Þórsarar hafa tapað tveimur síðustu leikjum, í síðustu umferð 2:0 fyrir Aftureldingu í Mosfellsbæ og þar áður með sömu markatölu fyrir Fram á heimavelli. Þar á undan vann Þór Gróttu 4:2 á heimavelli.

Víkingar töpuðu síðasta leik 3:0 fyrir Fram á heimavelli og þar áður 2:0 fyrir ÍBV heima.

  • Franski framherjinn Dominique Malonga, sem Þórsarar sömdu við í byrjun júlí, hefur verið sendur heim. Hann kom aðeins við sögu í tveimur leikjum; lék síðustu 23 mínúturnar í 2:2 jafntefli gegn Grindavík á útivelli og síðan fyrri hálfleikinn gegn Fram (0:2) á Þórsvellinum. Malonga olli miklum vonbrigðum, enda var hann örlítið meiddur, og samningnum var rift.