Tap í Grindavík í fyrsta leik eftir hlé
Þórsarar töpuðu með 14 stiga mun, 119:105, fyrir Grindvíkingum í gærkvöldi í efstu deild Íslandsmótsins í körfubolta, Domino´s-deildinni. Mikil tilhlökkun meðal leikmanna að komast loks aftur í baráttuna, en aðeins einni umferð var lokið í deildinni þegar keppni var bönnuð í haust.
Bílferðin til Grindavíkur virtist sitja í Þórsurum í fyrsta fjórðungi leiksins því þeir léku afleitlega og heimamenn voru yfir, 32:17, að honum loknum.
Þórsarar fengu hins vegar heldur betur byr í seglin í öðrum leikhluta og skoruðu þá hvorki meira né minna en 37 stig en heimamenn 24. Grindavík var því tveimur stigum yfir í hálfleik, 56:54, þriðja leikhluta unnu þeir með tveggja stiga mun, en gerðu svo 10 stigum meira en Þórsarar í síðasta leikhlutanum.
Leikmenn Þórs léku mjög vel á köflum en það kom þeim líklega í koll að sumir spiluðu nánast allan tímann og einn þeirra, bakvörðurinn Dedrick Deon Basile, meira að segja allar 40 mínúturnar.
Dedrick var frábær í kvöld og var með lang bestu tölfræðina: gerði 25 stig, tók sjö fráköst og átti 11 stoðsendingar. Ivan Aurrecoechea Alocado (28 stig og 14 fráköst) var líka gríðarlega góður og Srdjan Stojanovic (26 stig, 2 fráköst, 8 stoðsendingar) einnig.
Bjarki Ármann Oddsson, sem tók við þjálfun Þórs í Covid-pásunni, kvaðst í viðtali við Vísi í gærkvöldi sá bæði jákvæða og neikvæða hluti við leik sinna manna.
„Það var ýmislegt jákvætt en margt neikvætt. Við þurfum auðvitað vinna í okkar leik og þetta er í fyrsta sinn sem þetta lið spilar saman. Erlendu leikmennirnir eru stór hluti af liðinu og við erum með unga íslenska leikmenn. Ég hef fulla trú á því að við getum staðið í öllum liðunum í deildinni þegar við erum búnir að slípa okkur saman.“
Þórsliðið saknaði vitaskuld sárlega fyrirliða síns, Júlíusar Orra Ágústssonar, sem er meiddur. Ekki er vitað hvenær hann verður leikfær á ný.
- Ivan Aurrecoechea Alocado var mjög öflugur í leiknum í Grindavík. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.