Tahnai Annis leikur með Þór/KA á nýjan leik
Þór/KA hefur samið við fyrrum leikmann félagsins, Tahnai Annis. Hún er sóknarsinnaður miðjumaður og kom fyrst til Þórs/KA 2012, árið sem liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti.
Tahnai lék með Þór/KA á árunum 2012-2014, samtals 72 leiki í efstu deild, bikarkeppni, deildabikar, meistarakeppni og Evrópukeppni. Hún skoraði 21 mark í þessum 72 leikjum. Hún var lykilleikmaður með Þór/KA 2012-2014 og var valin besti leikmaður liðsins eftir tímabilið 2013.
Fyrirliði Filippseyja – fer á HM
Tahnai, sem verður 34 ára á árinu, hefur tvöfaldan ríkisborgararétt, fædd í Ohio í Bandaríkjunum og er með bandarískan ríkisborgararétt, en einnig filippseyskan. Hún hefur leikið með landsliði Filippseyja frá 2018, á þar 31 leik að baki og er fyrirliði landsliðsins. Landslið Filippseyja er á meðal þeirra liða sem fara á HM í sumar.
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA þekkir Tahnai vel því hann var þjálfari liðsins þau ár sem hún var hjá Þór/KA og var sá sem fékk hana hingað á sínum tíma. Jóhann kveðst ánægður með að fá hana aftur í herbúðir Þórs/KA. „Hún er auðvitað gæðaleikmaður, við vitum það frá því að hún var hér 2012-14, en lykilatriði fyrir okkur núna er að fá reynslu inn í hópinn, það er stórt atriði fyrir okkur eins og hópurinn er samsettur. Hún gerir alla leikmenn í kringum sig betri. Okkar ungi og efnilegi hópur hefur mjög gott af því. Þetta á eftir að hjálpa okkar leikmönnum sem fyrir eru mjög mikið. Auðvitað er hún líka frábær leikmaður og það spilar vissulega inn í þessa ákvörðun hjá okkur,“ segir Jóhann við heimasíðu Þórs/KA í dag.
Samningur Þórs/KA og Tahnai gildir út þetta ár.
Tahnai Annis í sigurleik gegn Breiðabliki sumarið 2012 þegar Þór/KA varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson