Sveinn og Tora unnu Þorvaldsdalsskokkið
Þorvaldsdalsskokkið var þreytt í þrítugasta sinn í gær, laugardag, í samnefndum dal við vestanverðan Eyjafjörð. Alls tóku 70 hlauparar þátt að þessu sinni. Í tengslum við afmælishlaupið bauð Ferðafélag Akureyrar upp á gönguferð um dalinn í minningu Bjarna Guðleifssonar sem var hugmyndasmiður að Þorvaldsdalsskokkinu og stóð fyrir því í rúman áratug frá 1994 þegar hlaupið var fyrst háð.
Þátttakendur sem hlupu eftir Þorvaldsdal endilöngum voru 44 og bar Sveinn Margeirsson sigur úr býtum á tæpum tveimur klukkutímum; 1:55:49. Fyrst kvenna var Tora Katinka Bergeng á tímanum 2:49:13. Vegalengd Þorvaldsdalsskokksins er u.þ.b. 24 km en þar sem leiðaval hlaupara er frjálst getur munað nokkru á heildarvegalengd einstakra hlaupara.
26 hlupu hálfan Þorvaldsdal að þessu sinni og fyrstur þeirra í mark var Peter Jensen á tímanum 1:22:52 en fyrsta kona var Sigríður Rúna Þóroddsdóttir á tímanum 1:33:41.
Öll úrslit í Þorvaldsdalsskokkinu eru aðgengileg á timataka.net (https://timataka.net/thorvaldsdalsskokkid2023/).
Sigurtími ársins var ágætur, að því er segir í tilkynningu, og næstbesti tími karls í aldursflokknum 40-49 ára frá upphafi. „Fleiri góð afrek voru unnin í hlaupi ársins. Skúli Jóhannesson kom í mark á tímanum 2:32:00 og er það besti tími karls í aldursflokknum 60-69. Árni Óðinsson hljóp dalinn á 3:53:33 sem er næstbesti tíminn í aldursflokknum 70 ára og eldri. Þrátt fyrir góða þátttöku í kvennaflokkum hlaupsins og ágætis árangur voru engin met slegin að þessu sinni.“
Þrír fyrstu sem hlupu Þorvaldsdalinn endilegan. Frá vinstri: Atli Steinn Sveinbjörnsson, 2. sæti; Sveinn Margeirsson, 1. sæti; Egill Bjarni Gíslason, 3. sæti.
Þrjár fyrstu sem hlupu Þorvaldsdalinn endilegan. Frá vinstri: Martha Hermannsdóttir, 2. sæti; Tora Katinka Bergeng, 1. sæti; Sylvi Thorstenson, 3. sæti
Þrír fyrstu sem hlupu hálfan Þorvaldsdal, Frá vinstri: Ricardas Kanisauskas, 2. sæti; Peter Jensen, 1. sæti; Kristinn Björn Haraldsson, 3. sæti.
Þrjár fyrstu sem hlupu hálfan Þorvaldsdal. Frá vinstri: Guðbjörg Ósk Sveinsdóttir, 2. sæti; Sigríður Rúna Þóroddsdóttir, 1. sæti; Arna Torfadóttir, 3. sæti.
Skúli Jóhannesson kemur í mark á tímanum 2:32:00 sem er besti tími sem hlaupið hefur verið á í aldursflokknum 60-69 ára.