Fara í efni
Íþróttir

Sveinbjörn framlengdi, Aue er á sigurbraut

Sveinbjörn Pétursson og Rúnar Sigtryggsson.

Sveinbjörn Pétursson, markvörður EHV Aue í þýsku 2. deildinni í handbolta, framlengdi samning við félagið á dögunum til vors 2022. Handbolti.is greindi frá þessu í morgun. Sveinbjörn, sem lék með Aue 2012 til 2016 gekk aftur til liðs við félagið síðasta sumar, hefur staðið sig mjög vel. Aue vann óvæntan sigur á Elbflorenz á útivelli í gærkvöldi, 29:21. Það var fjórði sigurinn í röð og liðið er komið upp á sjöunda sæti.

Rúnar Sigtryggsson tók við þjálfun Aue tímabundið í vetur eftir að aðalþjálfarinn veiktist og síðan hefur gengið ljómandi vel. Gera má ráð fyrir að Rúnar verði við störf út veturinn. Þeir Sveinbjörn höfðu áður starfað saman hjá Þór og Akureyri.