Fara í efni
Íþróttir

Súpufundir á ný hjá Þór – Vanda fyrsti gestur

Íþróttafélagið Þór hefur ákveðið að hefja súpufundaröð á ný, með stuðningi veitingahússins Greifans. Fyrsti fundurinn verður á morgun, föstudag 18. febrúar, og fyrsti gestur Vanda Sigurgeirsdóttir formaður Knattspyrnusambands Íslands, K.S.Í. Fundarstjóri súpufunda Þórs og Greifans er sem fyrr Viðar Sigurjónsson, starfsmaður ÍSÍ á Akureyri.

„Fundarformið verður eins og fyrr. Við byrjum fundinn kl 12.00 með því að fá okkur ljúffenga súpu og brauð frá Greifanum og svo hefur gestur fundarins framsögu og svarar svo spurningum úr sal,“ segir í tilkynningu frá Þór.

Allir sem láta sig málefni knattspyrnunnar á Íslandi varða eru velkomnir á meðan húsrúm í Hamri félagsheimili Þórs leyfir.

Súpa brauð og kaffi einungis kr 1000 per mann,“ segir í tilkynningunni.

Á árunum 2006 til 2009 hélt Þór 29 súpufundi í samstarfi við veitingahúsið Greifann og Vífilfell. „Þessir fundir voru gríðarlega vel heppnaðir og á þeim voru málefni íþróttahreyfingarinnar á Akureyri krufin og mikil og góð umræða skapaðist á fundunum og til dæmis var oft og einatt vitnað í súpufundi Þórs á bæjarstjórnarfundum.“