Fara í efni
Íþróttir

Stórsigur Þórs/KA á Tindastóli

Ísinn brotinn! Leikmenn Þórs/KA ærðust af fögnuði þegar Dominique Jaylin Randle gerði fyrsta mark leiksins í kvöld, þegar 62 mínútur voru liðnar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA vann 5:0 sigur á Tindastól í nágrannaslag í 9. umferð Bestu deildar kvenna á Þórsvelli nú í kvöld. Staðan var markalaus í leikhléi en fimm mörk frá heimaliðinu í þeim seinni sáu til þess að liðið vann annan leikinn í röð.

Heimakonur voru öflugri aðilinn í fyrri hálfleik og fengu mörg tækifæri til þess að skora. Karen María Sigurgeirsdóttir átti sláarskot á 11. mínútu leiksins og stuttu síðar fékk Hulda Ósk Jónsdóttir einnig færi til að skora fyrsta markið. Besta færi fyrri hálfleiks kom á 40. mínútu. Eftir frábært spil heimakvenna komst Sandra María Jessen ein í gegn, hún náði að fara fram hjá markmanni Tindastóls en skot hennar úr þröngu færi fór í hliðarnetið. 

Stuttu síðar varð Þórs/KA liðið fyrir áfalli þegar Sandra María fór handleggsbrotin af velli. Sandra átti þá skot í varnarmann, boltinn skaust til baka og beint í hendina á henni með þessum afleiðingum. Sandra fór sárþjáð af velli. Þrátt fyrir mörg færi Þór/KA var staðan markalaus þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Hulda Ósk Jónsdóttir lék gríðarlega vel í kvöld. Hér lætur hún vaða á markið utarlega úr vítateignum þegar um það bil 10 mínútur voru eftir og boltinn söng efst í fjærhorninu fjær. Stórglæsilegt mark! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Gestirnir frá Sauðárkróki byrjuðu seinni hálfleikinn mun betur en heimakonur og á 48. mínútu komu þær boltanum í netið þegar Melissa Garcia skoraði með skalla. Sveinn Arnarson, dómari leiksins, dæmdi þá sóknarbrot á Melissu þegar hún stökk upp í skallabolta gegn nöfnu sinni í marki Þór/KA. Snertingin virtist ekki mikil og má segja að lið Þórs/KA hafi sloppið með skrekkinn.

Á 62. mínútu leit fyrsta markið dagsins ljós. Dominique Randle skoraði þá með skoti úr teignum eftir hornspyrnu. Við þetta opnuðust flóðgáttirnar og aðeins tveimur mínútum síðar bætti Karen María Sigurgeirsdóttir við marki með skoti úr teignum eftir sendingu frá Huldu Björgu. Una Móeiður Hlynsdóttir bætti svo við þriðja markinu á 67. mínútu, Una gerði vel í að vinna baráttu við varnarmann Tindastóls og renna boltanum fram hjá Melissu í markinu. Þrjú mörk á 7 mínútum og heimakonur búnar að gera út um leikinn.

Hulda Ósk bætti svo tveimur mörkum við áður en yfir lauk. Á 79. mínútu leiksins skoraði hún með frábæru skoti eftir að hafa komist ein gegn varnarmanni gestanna. Á 90. mínútu fékk Þór/KA liðið vítaspyrnu þegar Hannah Cade handlék boltann innan teigs. Hulda fór á punktinn og skoraði fimmta mark Þór/KA.

Lokatölur 5:0 og frábær frammistaða Þórs/KA í seinni hálfleik staðreynd. Eftir leikinn er liðið í fjórða sæti deildarinnar með 15 stig, fimm stigum frá toppliði Vals. Næsti leikur liðsins er á sunnudaginn þegar Stjörnukonur koma í heimsókn á Þórsvöll. 

Nánari umfjöllun og MYNDASYRPA á morgun