Stórleikur í kvöld – Fer Þór/KA í bikarúrslit?
Stórleikur í knattspyrnu fer fram á Þórsvellinum (VÍS-vellinum) í kvöld. Stelpurnar okkar í Þór/KA taka þá á móti liði Breiðabliks úr Kópavogi í undanúrslitum bikarkeppni KSÍ, Mjólkurbikarkeppninnar. Mikið er í húfi því sigurvegari kvöldsins tryggir sér sæti í úrslitaleiknum. Flautað verður til leiks klukkan 19.45.
Ítarleg, fróðleg og skemmtileg grein birtist á vef Þórs/KA í morgun í tilefni leiksins.
Þar segir meðal annars: Mögulega er leikur dagsins mikilvægasti heimaleikur liðsins á þessu tímabili því sigurliðið fer í úrslitaleik Mjólkurbikarkeppninnar - og leikið til þrautar ef þörf er á. Það er því enn og aftur ástæða til að hvetja Akureyringa til að mæta á völlinn og styðja stelpurnar okkar, hvort sem fólk mætir í svörtu í stíl við Þór/KA eða í litum félaganna sem standa að þessu sigursælasta knattspyrnuliði bæjarins. Miðasala er í Stubbi-appinu og við hliðið á vellinum. Athugið að ársmiðar á leiki Þórs/KA gilda EKKI á bikarleiki.
- Veðrið leikur ekki við Akureyringa í dag en ástæðulaust er að láta það hafa áhrif. Akureyri.net hvetur alla sem vettlingi geta valdið til að mæta á leikinn – muna bara eftir regnhlífinni og að klæða sig vel – því Stelpurnar okkar eiga svo sannarlega skilið allan þann stuðning sem mögulegur er.
Katrín Ásbjörnsdóttir fagnar eftir að hún skoraði fyrir Þór/KA í bikarúrslitaleiknum gegn Breiðabliki á Laugardalsvelli sumarið 2013. Aðrir leikmenn liðsins eru, frá vinstri, Tahnai Annis, Arna Sif Ásgrímsdóttir fyrirliði (11), Silvía Rán Sigurðardóttir (3) og Kayla Grimsley. Katrín leikur í dag með Breiðabliki. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Á vef Þórs/KA segir að ekki verði aðeins boðið upp á fyrirtaks fótboltaskemmtun á vellinum heldur sé ýmislegt í boði fyrir leik, í leikhléi og eftir leik í samstarfi stjórnar Þórs/KA og stuðningshóps í kringum liðið:
- Upphitunin hefst í Hamri um kl. 18:30. DJ Lilja lífgar upp á stemninguna, andlitsmálning og ís í boði.
- Happdrættismiði fyrir öll sem mæta, flottir vinningar dregnir út í leikhléi.
- Kvennakvöldsnefndin afhendir styrki og eftir leik býðst stuðningsfólki að fá myndir með leikmönnum Þórs/KA áritaðar.
Þór/KA og Breiðablik hafa mæst fjórum sinnum í bikarkeppninni í gegnum árin:
- 2008 – Þór/KA - Breiðablik 0:1
- 2009 – Breiðablik - Þór/KA 2:1
- 2013 – Breiðablik - Þór/KA 2:1 - Úrslitaleikur keppninnar
- 2017 – Breiðablik - Þór/KA 1:3
Af þeim sem voru í leikmannahópnum í leiknum 2017 eru fimm hjá félaginu í dag, segir á vef Þórs/KA. Sandra María Jessen, Hulda Ósk Jónsdóttir og Hulda Björg Hannesdóttir voru í byrjunarliðinu, en Margrét Árnadóttir og Agnes Birta Stefánsdóttir voru varamenn og komu báðar við sögu í leiknum.
Sandra María er hins vegar sú eina í leikmannahópnum í dag sem spilaði úrslitaleikinn 2013, en Jóhann Kristinn Gunnarsson var þjálfari liðsins þá eins og nú. Jóhann fór þrisvar með liðið í undanúrslit eða lengra á þeim fimm tímabilum sem hann stýrði liðinu á árunum 2012-2016 og svo núna á öðru tímabilinu með liðið.
Smellið hér til að sjá meiri skemmtilegan fróðleik.