Stjörnumenn ósáttir við KSÍ og Akureyrarbæ
Einn leikmanna knattspyrnuliðs Stjörnunnar, Hilmar Árni Halldórsson, meiddist í leik gegn Þór í Boganum um síðustu helgi og eru forráðamenn Garðabæjarliðsins afar ósáttir við að hafa þurft að leika í húsinu.
Helgi Hrannarr Jónsson, formaður meistaraflokksráðs Stjörnunnar, segir í grein á fotbolti.net í morgun að vegna frétta af slæmu ástandi grassins í Boganum hafi Stjarnan krafist þess að leikurinn færi fram annar staðar. Við því var ekki orðið, Akureyrar hafi brugðist við með „enn einni reddingunni“ og Helgi Hrannarr gagnrýnir bæði Akureyrarbæ og Knattspyrnusamband Íslands vegna málsins.
„Allt klappað og klárt og í raun og veru afgreitt með þeim hætti að við værum að væla yfir hlutum sem væru í góðu lagi, enda yrði þetta lagað. Ábyrgð og meðvirkni KSÍ í þessum þætti er umtalsverð. Fyrr í þessari viku og eftir umrætt atvik var mér tjáð að ekkert annað félag hafi kvartað yfir þessum aðstæðum. Ef satt reynist þá þurfa menn verulega að skoða sína afstöðu til handa heilsu og velfarnaðar leikmanna sinna,“ segir Helgi Hrannarr.
Getuleysi bæjarins
„Niðurstaða málsins er hins vegar allt önnur og alvarlegri enda sú aðstaða sem Akureyrabær skaffar langt í frá að teljast ásættanleg og í þessu tilviki hefur hún afgerandi áhrif á leikmann okkar sem er eitthvað sem ég get illa sætt mig við. Fyrir utan það augljósa þá eru leikmenn hvort heldur sem eru yngri iðkendur eða afreksfólk í þeirri stöðu að þeim er veruleg hætta búin að spila og æfa við slíkan aðbúnað og afleiðingar getuleysis Akureyrarbæjar til að sinna viðhaldi eigna sinna hefur í þessu tilviki ömurlegar afleiðingar í för með sér enn eina ferðina, og í þessu tilviki fyrir okkar leikmann sem skaddar á sér hnéð og mögulega mjög illa sem kemur í ljós á næstu dögum. Allir aðrir leikmenn félagsins fundu fyrir eymslum sem er óeðlilegt fyrir afreksmenn í fremstu röð, en er skiljanlegt þegar rýnt er í úttektir sem hafa farið fram á vellinum.“
Helgi lýkur pistlinum með þessum orðum: „Verst af öllu þykir mér þó að hafa bent á hættuna löngu áður og þurfa að horfa uppá frábæran leikmann, fyrirmynd og leiðtoga kljást við erfið meiðsli af því að ég setti mitt traust á forsvarsmenn Akureyrarbæjar og knattspyrnusambandsins sem brugðust viðkomandi leikmanni illilega. Þeirra er skömmin en eftirsjáin er mín að hafa búist við meiru.“
Smellið hér til að lesa grein Helga Hrannars.