Stjarnan tekur aftur á móti KA/Þór í kvöld
KA/Þór mætir Stjörnunni í Garðabæ í kvöld, í Olísdeild Íslandsmóts kvenna í handbolta. Þar með lýkur löngu og leiðinlegu máli, með kærum og tilheyrandi kostnaði, eftir að „draugamark“ gerði það að verkum að KA/Þór sigraði í leik liðanna um miðjan febrúar með einu marki. Leikurinn var á endanum dæmdur ólöglegur og áfrýjunardómstóll HSÍ úrskurðaði að liðin yrðu að mætast aftur.
Forráðamenn KA/Þórs voru allt annað en sáttir við niðurstöðuna og hugðust fara með málið lengra en hættu við. „Eftir að hafa ráðfært okkur við HSÍ þá varð niðurstaða okkar sú að hætta þessu máli og taka þessari niðurstöðu, þó að við séum ekki sammála henni, og reyna að klára þetta mót svo að hægt sé að fara í úrslitakeppni,“ sagði Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, í samtali við Vísi í dag.
„Þetta mál er búið að fara fram og til baka í okkar huga. Við veltum því mikið fyrir okkur að fara með málið til ÍSÍ og jafnvel lengra. En ef við hefðum farið með málið til ÍSÍ voru meiri líkur en minni á að það myndi tefjast eitthvað áfram og að þar með yrði erfitt að ná að spila þessar tvær umferðir sem eftir eru fram að úrslitakeppni. Okkur fannst það ekki hægt, miðað við hvað það hefur verið mikið um stopp og vesen í vetur. Því var ekki annað í stöðunni en að játa okkur sigruð þó að því fylgi óbragð,“ sagði Sævar.
Sævar segist vonast til að HSÍ komi til móts við KA/Þór varðandi ferðakostnaðinn en félagið hafi gert sér grein fyrir því að lögfræðikostnaðinn þyrfti það sjálft að borga.
Aðspurður hvernig hljóðið væri í leikmönnum og þjálfara, eftir allt sem á undan er gengið, svaraði Sævar: „Auðvitað voru menn sárir og svekktir að þurfa að fara aftur af stað í dag til að spila leikinn. En svona er niðurstaða dómstóls HSÍ, þó að við séum ekki sammála henni. Ég vona bara að menn mæti til leiks til þess að vinna leikinn aftur.“
Leikurinn hefst klukkan 19.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.