Stevce Alusovski látinn fara frá Þór
Stevce Alusovski er hættur sem þjálfari Þórsliðsins í handknattleik. Þórsarar sögðu samningi hans upp í morgun og Stevce hefur því stýrt liðinu í síðasta skipti. Óráðið er hver tekur við þjálfun liðsins.
Þórsari sem Akureyri.net ræddi við sagði engan vafa á að Stevce væri frábær þjálfari að mörgu leyti og afar góð manneskja, en stundum gengju hlutirnir einfaldlega ekki upp; Stevce þyki hafa gert mjög margt gott fyrir hina ungu leikmenn Þórs, margir þeirra hafi bætt sig mikið, en mönnum þyki liðið þó eiga enn meira inni.
Óvænt ráðning
Það vakti mikla athygli þegar Þór réð Stevce til starfa sumarið 2021 enda hafði hann síðast þjálfað hið sögufræga félag Vardar frá Skopje í heimalandinu, Norður-Makedóníu, en Þórsliðið var nýfallið úr efstu deild.
Stevce, sem stendur á fimmtugu, gerði eins árs samning þegar hann kom til landsins og í haust var hann endurráðinn – samdi þá til þriggja ára. Nú er samstarfinu hins vegar lokið.
Þórsarar eiga sjö leiki að baki í vetur, hafa unnið tvo, gert eitt jafntefli en tapað fjórum – síðast á föstudaginn var fyrir Víkingum í Reykjavík. Þórsarar eru í sjöunda sæti deildarinnar sem stendur.
Næsti leikur Þórsliðsins er gegn ungmennaliði Fram í Reykjavík á föstudaginn og þá verður við stjórnvölinn Halldór Örn Tryggvason, sem verið hefur aðstoðarmaður Stevce en reyndar ekki starfað í vetur þar sem hann hefur verið í feðraorlofi.
- Frétt Akureyri.net þegar Þór samdi við Stevce til þriggja ára í vor: Alusovski þjálfar Þór næstu þrjú ár