Stelpurnar skutust aftur á toppinn
Stelpurnar í KA/Þór komust í efsta sæti Olísdeildar Íslandsmótsins í handbolta í kvöld á ný, með mjög öruggum sigri á HK í Kópavogi. Lokatölur urðu 29:23.
Yfirburðirnir voru gríðarlegir í fyrri hálfleik og hægt að halda því fram að verkefninu hafi allt að því verið lokið í hálfleik. Munurinn þá var níu mörk, 15:6, og varð mestur 11 mörk snemma í seinni hálfleik, áður en heimamenn náðu að laga stöðuna dálítið. Þeir áttu þó aldrei von um að ná í stig.
Rut Jónsdóttir lék gríðarlega vel í sókn og gerði níu mörk úr 10 skotum, og Aldís Ásta Heimisdóttir var einnig frábær; gerði átta mörk úr 11 skotum og var feykilega góð í vörninni.
Mörkin KA/Þórs: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 9 (5 víti), Alda Ásta Heimisdóttir 8, Ásdís Guðmundsdóttir 5 (1 víti), Rakel Sara Elvarsdóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Anna Marý Jónsdóttir 1 og Hulda Bryndís Tryggvadóttir 1.
Matea Lonac varði 11 skot og Sunna Guðrún Pétursdóttir 1.
Mjög ánægð
Rut Jónsdóttir var hæstánægð í leikslok. „Ég var mjög ánægð með liðið. Við vorum tilbúnar í leikinn frá upphafi. Frábær byrjun gaf okkur gott forskot sem við héldum í 45 mínútur,“ sagði hún í samtali við handbolta.is. „Það var áfall fyrir okkur að missa Huldu Bryndísi [Tryggvadóttur] af leikvelli snemma í síðari hálfleik. Það breytti aðeins leiknum. En við héldum áfram að leika af áræðni. Ég var bara hrikalega ánægð með liðið þótt við hefðum aðeins slakað á í lokin þá var sigurinn ekki hættu,“ sagði Rut. Smelltu hér til að lesa meira á handbolti.is. Hulda Bryndís fékk höfuðhögg þegar aðeins átta mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og lék ekki meira.
KA/Þór er með 19 stig eftir 12 leiki, Fram er með 18 stig og Valur 15. Nú verður gert hlé á deildinni vegna verkefna landsliðsins og næsti leikur KA/Þórs er ekki fyrr en eftir hálfan mánuð. Tvær umferðir eru eftir af deildinni og svo skemmtilega vill til að báðir leikirnir eru við hin liðin í toppbaráttunni.
Laugardag 27. mars
- KA/Þór – Valur
- FH – Fram
- Stjarnan – ÍBV
Mánudaginn 5. apríl
- Fram – KA/Þór
- ÍBV – FH
Aldís Ásta Heimisdóttir gerði átta mörk í leiknum og var auk þess mjög góð í vörninni. Ljósmynd: Egill Bjarni Friðjónsson.