Fara í efni
Íþróttir

Stelpurnar okkar taka á móti Breiðabliki

Sandra María Jessen og Margrét Árnadóttir eftir að sú síðarnefnda gerði sigurmarkið gegn Keflavík um daginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Seinni hluti Bestu deildarinnar í knattspyrnu, efstu deildar Íslandsmótsins, hefst í dag með 10. umferð. Þór/KA tekur á móti Breiðabliki á Þórsvellinum (SaltPay vellinum) klukkan 14.00.

Blikarnir unnu fyrri leik liðanna 4:1 í fyrstu umferðinni í Kópavogi. Þeir eru í öðru sæti deildarinnar með 18 stig að loknum níu leikjum en Þór/KA er í áttunda sæti með 10 stig.

„Upphitun“ verður í Hamri frá kl. 13.00 að því er segir á vef Þórs/KA. „Skellum borgurum á grillið í „góða veðrinu“. Borgari og drykkur eru í boði fyrir árskortshafa, innifalið í árskortinu, en að sjálfsögðu einnig til sölu á góðu verði fyrir alla gesti. Nú er bara að klæða sig eftir veðrinu og mæta á völlinn, hvetja stelpurnar og styðja liðið til sigurs. Þetta er síðasti leikur okkar í deildinni fyrir EM-hléið, en næsti heimaleikur verður ekki fyrr en 9. ágúst,“ segir á vefnum.