Fara í efni
Íþróttir

„Stelpurnar okkar“ jöfnuðu einvígið

KA/Þór lék frábæra vörn í fyrri hálfleik; Thea Imani Sturludóttir er hér tekin föstum tökum af Aldísi Ástu Heimisdóttir, Rut Jónsdóttur og Mörthu Hermannsdóttur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Íslandsmeistarar KA/Þórs unnu Val 26:23 í mögnuðum leik í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta í KA-heimilinu í kvöld.

Staðan í einvíginu er þar með 1:1 því Valur vann fyrsta leik liðanna. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í úrslit.

Ekki er ofmælt að leikurinn í kvöld hafi verið kaflaskiptur. KA/Þór lék frábæra vörn í fyrri hálfleik og í upphafi þess seinni og komst mest níu mörkum yfir – 18:9. Þá snérist dæmið við og Valsstelpurnar minnkuðu muninn jafnt og þétt. Minnstur varð hann tvö mörk en í lokin munaði þremur. Liðin mætast aftur í Reykjavík á fimmtudaginn.

Mörk KA/Þórs: Aldís Ásta Heimisdóttir 6, Martha Hermannsdóttir 6 (4 víti), Unnur Ómarsdóttir 3, Rut Jónsdóttir 3, Ásdís Guðmundsdóttir 3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Anna Mary Jónsdóttir 1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1, Rakel Sara Elvarsdóttir 1.

Varin skot: Sunna Guðrún Pétursdóttir 11 (af 34 skotum – 32,4%)

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Rut Jónsdóttir og Anna Þyrí Halldórsdóttir bjóða Hildigunni Einarsdóttur innilega velkomna! Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Hugað að Aldísi Ástu Heimisdóttir eftir að hún varð fyrir hnjaski en augljóslega er allt í lagi. Hún lék gríðarlega vel í kvöld.

Martha Hermannsdóttir platar markmann Vals upp úr skónum í vítakasti.

Sunna Guðrún Pétursdóttir ver víti frá stórskyttunni Theu Imani Sturludóttur.

Lovísa Thompson, önnur frá vinstri, er ein albesta handboltakona landsins. Hún náði sér ekki á strik í fyrri hálfleik og sat nánast allan seinni hálfleik á varamannabekknum.

Sigrinum var fagnað á hefðbundinn hátt í kvöld.