Fara í efni
Íþróttir

Stelpurnar með níu fingur á bikarnum

Teresa Snorradóttir og Hilma Bergsdóttir þjarma að markverði Fjölnis, andartökum áður en Teresa gerði áttunda mark SA í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Kvennalið Skautafélags Akureyrar burstaði lið Fjölnis, 13:1, í fyrri úrslitaleik Íslandsmótsins í íshokkí í skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Óhætt er að tala um fyrri úrslitaleik þótt þrír séu settir á dagskrá til öryggis; tvo sigra þarf til að verða Íslandsmeistari og annað er óhugsandi en Akureyrarliðið vinni aftur þegar liðin mætast í Reykjavík á fimmtudaginn. Að vísu er ekkert ómögulegt í íþróttum, en næstum allt.

Staðan eftir fyrsta leikhluta í kvöld var 7:0, SA gerði fjögur mörk í öðrum leikhluta og tvö í þeim síðasta. Staðan var orðin 13:0 áður en gestirnir skoruðu í lokin.

Sunna Björgvinsdóttir gerði 3 mörk í kvöld, Saga Sigurðardóttir og Hilmar Bergsdóttir 2 hvor og þær María Eiríksdóttir, Kolbrún Garðarsdóttir, Berglind Leifsdóttir, Jónína Guðbjartsdóttir, Teresa Snorradóttir og Ragnhildur Kjartansdóttir allar eitt hver. Laura Murphy gerði mark Fjölnis.