Fara í efni
Íþróttir

Stelpurnar í KA/Þór fóru á toppinn

Ásdís Guðmundsdóttir var frábær í liði KA/Þórs gegn HK og gerði 13 mörk úr jafn mörgum skotum. Boltinn söng í netinu augabragði eftir að myndin var tekin. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Stelpurnar í KA/Þór burstuðu lið HK úr Kópavogi, 31:19, í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olís deildinni, í KA-heimilinu fyrr í kvöld. Með sigrinum skaust Akureyrarliðið á toppinn, er með sjö stig eftir fimm leiki, en Valsarar geta reyndar komist upp fyrir stelpurnar okkar með sigri á FH í kvöld. Yrðu þá með stigi meira.

„Við spiluðum mjög heilsteyptan og góðan leik í 60 mínútur,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfariKA/Þórs, við Akureyri.net eftir leikinn. „Markmiðið var að gera betur en í síðasta leik gegn Haukum. Þótt við ynnum þann leik og lékjum vel að mörgu leyti datt spilamennskan niður á tveimur köflum, en í dag léku stelpurnar af miklum krafti allan tímann. Varnarleikurinn var mjög þéttur, Matea góð í markinu og sóknarleikurinn var mjög agaður og gott flæði í honum. Við vorum að fá mörk alls staðar frá,“ sagði Andri Snær, himinlifandi með frammistöðuna, eins og hann má vera.

Ásdís Guðmundsdóttir fór á kostum og gerði 13 mörk úr jafn mörgum skotum, sem fyrr segir, þar af 5 úr vítum. Rut Jónsdóttir tók fyrsta vítið sem KA/Þór fékk og brást bogalistin þannig að Ásdís sá um þau sem eftir var.

Rakel Sara Elvarsdóttir gerði 5 mörk í leiknum, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 2 og 1 hver, þær Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir, Telma Lísa Elmarsdóttir, Rut Jónsdóttir og Anna Þyrí Halldórsdóttir.

Viðbót klukkan 22.00

Valur burstaði FH 37:15 í kvöld. Staða efstu liða er því þannig; leikir og stig:

Valur      5 - 8 

KA/Þór   5 - 7

Fram      4 - 6

ÍBV         4 - 7