Steinþór framlengir við KA – Elvar í Stjörnuna
Knattspyrnudeild KA og Steinþór Freyr Þorsteinsson hafa gengið frá eins árs framlengingu á samningi leikmannsins og því ljóst að Steinþór leikur með KA á sumri komanda. Þetta kemur fram á vef KA. Á dögunum var einnig tilkynnt að drengjalandsliðsmaðurinn Elvar Máni Guðmundsson er genginn til liðs við Stjörnuna í Garðabæ þar sem fjölskyldan er flutt suður. Þessi efnilegi leikmaður varð 17 ára í síðustu viku.
„Steinþór lauk nýverið sínu sjötta tímabili með KA eftir að hafa komið frá Sandnes Ulf í Noregi fyrir sumarið 2017. Steinþór sem er 37 ára hefur leikið 96 leiki fyrir KA í deild og bikar og hefur í þeim gert fimm mörk. Það eru því allar líkur á því að Steinþór bætist í 100 leikja hópinn hjá KA í sumar,“ segir á heimasíðu KA.
„Steinþór er fæddur árið 1985 og er uppalinn hjá Breiðablik í Kópavogi þar sem hann hóf að leika með meistaraflokki aðeins 17 ára gamall. Árið 2009 gekk hann til liðs við Stjörnuna og sló þar í gegn og var valinn í A-landslið Íslands sama ár. Steinþór hefur leikið 8 landsleiki fyrir Ísland og fjölmarga yngrilandsliðsleiki. Það er afar jákvætt skref að halda Steinþóri áfram innan okkar raða en auk þess að vera öflugur leikmaður er hann frábær liðsmaður og flott fyrirmynd fyrir hina fjölmörgu ungu leikmenn okkar og mun halda áfram að miðla sinni miklu reynslu til þeirra.“
Elvar Máni Guðmundsson er sóknarmaður. Hann hefur alla tíð leikið með KA og gerði fyrsta samninginn við félagið á 15 ára afmælinu, í janúar 2021. Hann á að baki 3 leiki fyrir U16 ára landslið Íslands og 2 leiki fyrir U17.