Stefnir í fjölmennustu Andrésar andar leikana

Fjölmennustu Andrésarleikar frá upphafi verða haldnir í Hlíðarfjalli 23. - 26. apríl næstkomandi. Rúmlega 900 keppendur hvaðanæva af landinu eru skráðir til þátttöku og í mótsskránni fyrir þessa 49. Andrésarleika segir í formannspistli Fannars Gíslasonar að þessi aukning í þáttöku gefi til kynna meiri áhuga á landsvísu á skíða- og brettaíþróttum.
Miklir möguleikar í Hlíðarfjalli
Fannar segir enn fremur í pistli sínum, að Skíðafélag Akureyrar sé sérstaklega þakklátt fyrir að geta haldið leikana þrátt fyrir snjóleysi vetrarins, en Hlíðarfjall bjóði upp á mikla möguleika til þess að skíðavertíðin gæti verið betri, en til þess þurfi að ráðast í umbætur í fjallinu. Fyrr í vetur kynnti Skíðafélagið fimm ára aðgerðaráætlun sem felst í landmótun brekka, uppsetningu snjógirðinga, uppbyggingu snjósöfnunarsvæða og uppfærslu snjóframleiðslukerfis.
Langtímamarkmið með þessum umbótum felst í því að geta hafið æfingar fyrr, eða a.m.k. geta æft í 30 daga fyrir 1. des. Þannig væri hægt að skapa forsendur fyrir íslenskt afreksskíðafólk til þess að geta sinnt æfingum heima við. Fyrir stuttu birti Akureyri.net viðtal við afrekskonuna Sonju Lí, sem fór 15 ára að heiman, í skíðamenntaskóla í Noregi, en veruleikinn er sá að í dag er það helsta úrræðið fyrir þau sem vilja ná langt í íþróttinni.
Samkvæmt pistli Fannars hefur Akureyrarbær þegar samþykkt að ráðast í fyrstu aðgerðir á þessu ári, með því markmiði að fjölga opnunardögum næsta vetur.
Hér er hlekkur á mótsskrá Andrésarleikanna 2025 þar sem lesa má pistil Fannars í heild.