Fara í efni
Íþróttir

Staðfest að Arna verður þjálfari KA/Þórs

Arna Valgerður Erlingsdóttir hefur verið ráðin aðalþjálfari handboltaliðs KA/Þórs. Akureyri.net greindi frá því snemma í júlí að Arna tæki líklega við af Andra Snæ Stefánssyni sem þjálfari liðsins – smellið hér til að sjá þá frétt . Ráðningin var staðfest á heimasíðu KA í dag.

„Við erum einstaklega ánægð með að fá Örnu til starfa hjá okkur. Þegar Andri Snær sagði upp störfum var Arna strax mjög ofarlega á blaði hjá okkur,“ segir Stefán Guðnason, nýr formaður kvennaráðs KA/Þórs, á heimasíðu KA.

„Hún hefur starfað lengi hjá félaginu, veit hvað við stöndum fyrir og er gríðarlega hæfileikaríkur þjálfari, það þekki ég af eigin raun eftir að hafa starfað með henni lengi. Við erum í ákveðnum uppbyggingafasa og við teljum Örnu vera frábæran kost til að leiða okkar unga og efnilega lið upp á næsta þrep.“

Íslandsmót kvenna í handbolta hefst laugardaginn 9. september. KA/Þór fær þá lið ÍBV í heimsókn.

Nánar hér á heimasíðu KA