SR-ingar aftur með Íslandsbikarinn suður
Annað árið í röð vinna SR-ingar Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí með sigri í oddaleik í Skautahöllinni á Akureyri. Leikurinn í dag var jafn og spennandi, en heimamenn í SA virtust þó lengst af líklegri, sóttu meira, en það eru mörkin sem telja. Gestirnir skoruðu þrjú, en heimamenn tvö og því fer bikarinn suður.
Skautahöllin var svo að segja troðfull, setið og staðið á hverjum einasta mögulega bletti í höllinni og stemningin eftir því enda ekki um neinn venjulegan deildarleik að ræða heldur Akureyringar að berjast fyrir því að fá Íslandsbikarinn aftur norður og gestir, bæði á svellinu og í stúkunni, sem vildu halda honum fyrir sunnan.
Baltasar Hjálmarsson, til vinstri, og Róbert Máni Hafberg fagna eftir að Baltasar kom SA í 2:1 skömmu fyrir lok annars leikhluta, eftir sendingu Róberts. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Stórsókn SA í byrjun, en gestirnir skoruðu
SA sótti án afláts fyrstu mínúturnar og létu skotin dynja að marki SR, en það var hins vegar SR sem skoraði fyrsta markið. Kári Arnarsson hefur reynst SR-ingum drjúgur og heldur því áfram. Þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar lét hann vaða á markið af löngu færi og tók forystuna fyrir SR.
Aðeins 40 sekúndum eftir að leikur hófst að nýju í kjölfar marks Baltasars fyrir SA skoraði Petr Stepanek fyrir SR og jafnaði leikinn. Hann fagnar hér ásamt Axel Orongan, einum Akureyringanna í liði SR. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Það leið þó ekki á löngu þar til heimamenn jöfnuðu leikinn. Hafþór Andri Sigrúnarson átti þá skot rétt innan við rangsöðulínuna, hægra megin, og Arnar Helgi Kristjánsson, sem stóð framan við markvörðinn, stýrði pökknum í markið.
Jafnt eftir fyrsta leikhlutann, hraður og skemmtilegur leikur, heimamenn heldur aðgangsharðari en gestirnir, en það eru mörkin sem telja.
Refsingar og liðsmunur skila fáum mörkum
Líkt og í fjórða leiknum gekk liðunum illa að nýta sér liðsmun þegar andstæðingar voru sendir í refsiboxið. Markverðirnir sáu líka til þess að lítið var skorað, en ekki skorti tækifærin. Það kveikti líka vel í stuðningsfólki þegar Jakob Ernfelt Jóhannesson varði eftir að leikmaður SR komst einn í skyndisókn á móti honum og svo í öðru tilviki þegar SR-ingur brunaði í sókn og Orri Blöndal renndi sér á maganum og komst fyrir pökkinn. Minnti dálítið á Alexander Peterson um árið, hvaðan kom hann, hver er hann og allt það.
Filip Krzak fagnar eftir að hann gerði sigurmarkið í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
SA Víkingar náðu nokkrum sinnum skemmtilegum sóknum með góðu samspili sem skapaði góð færi, en skiluðu ekki mörkum, ekki fyrr en alveg í lok leikhlutans. Baltasar Hjálmarsson náði þá forystunni með marki af stuttu færi eftir sendingu frá Róberti Mána Hafberg. Það var þó skammgóður vermir því aðeins 40 sekúndum eftir að leikur hófst að nýju skoraði Petr Stepanek fyrir SR og jafnaði leikinn.
Áfram hnífjafnt eftir 40 mínútna leik og spennandi lokaleikhluti fram undan.
Helgi Páll Þórisson, formaður Íshokkísambands Íslands, afhenti Kára Arnarssyni fyrirliða Skautafélags Reykjavíkur Íslandsbikarinn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Loksins nýttist liðsmunurinn, bara öfugu megin
Akureyringar sóttu án afláts í þriðja leikhutanum og virtist um tíma dregið af gestunum, sem þó fengu sínar sóknir og tækifæri. Enn og aftur nýttist það liðunum illa að vera einum fleiri þegar andstæðingarnir fengu refsingu, eða þar til rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka. SR-ingar voru þá einum fleiri og nýttu sér það. Filip Krzak var þá aleinn hægra megin við markið, fékk sendingu og náði forystunni fyrir SR.
Atli Sveinsson fékk að finna vel fyrir því um miðjan þriðja leikhlutann þegar hann var keyrður út í battann við varamannabekk SR og virtst skella með höfuðið ofan á battann. Sjúkrateymið sem er á öllum leikjum í Skautahöllinni sannaði gildi sitt, Atli fékk aðhlynningu, en náði þó ekki að spila meira það sem eftir var leiks.
Ljósmynd: Rakel Hinriksdóttir
SA Víkingar reyndu hvað þeir gátu, tóku markvörðinn út af og fjölguðu í sókninni, en ekki vildi betur til en svo að SR-ingar náðu pökknum og brunuðu í sókn, en voru stöðvaðir og SA-fékk refsingu og því aftur einum færri. Skömmu seinna misstu gestirnir mann í refstiboxið og því aftur jafnt í liðunum, aftur fór markvörður SA út af og fjölgað í sókninni þegar rétt innan við mínúta var eftir.
SA - SR 2-3 (1-1, 1-1, 0-1)
- 0-1 Kári Arnarsson (03:56). Stoðsending: Petr Stepanek.
- 1-1 Arnar Helgi Kristjánsson (08:37). Stoðsending: Hafþór Andri Sigrúnarson, Andri Már Mikaelsson.
- - - - 2-1 Baltasar Hjálmarsson (38:24). Stoðsending: Róbert Máni Hafberg, Unnar Hafberg Rúnarsson.
- 2-2 Petr Stepanek (39:04). Stoðsending: Sölvi Atlason, Axel Orongan.
- - - - 2-3 Filip Krzak (56:57). Stoðsending: Petr Stepanek, Axel Orongan.
Jakob Ernfelt Jóhannesson varði 24 skot í marki SA (88,89%) og Jóhann Ragnarsson 37 skot í marki SR (94,87%). Heimamenn í SA fengu 18 mínútur í refsiboxinu, en SR-ingar tíu mínútur.
Leikskýrslan (ihi.is)
Íslandsmeistarar Skautafélags Reykjavíkur 2024. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson