Fara í efni
Íþróttir

Spennandi langstökk - þriðja gull Kolbeins

Síðasta umferð langstökksins: Ingi Rúnar Kristinsson, Breiðabliki, gjóir augunum á mælistikuna um leið og hann lendir. Ljósmynd © Skapti Hallgrímsson.

Langstökk karla var skemmtilegasta keppni síðari dags Meistaramóts Íslands í frjálsíþróttum á Þórsvellinum í dag. Birnir Vagn Finnsson úr Ungmennafélagi Akureyrar hafði forystu fyrir síðustu umferð en Ingi Rúnar Kristinsson, Breiðabliki, fór einum sentimetra fram úr Birni í síðasta stökkinu og nældi í gullið.

Keppni þeirra var kostuleg. Báðir gerðu þrjú stökk gild; stukku fyrst 6,29 metra og síðan 6,32 m. Birnir sveif svo 6,33 m í næst síðustu tilraun en Ingi Rúnar tók upp á því að fara 6,34 m í lokastökkinu. Hann var á undan í röðinni svo Birnir fékk eitt tækfæri til að ná efsta sætinu á ný, en gerði ógilt og varð því að sætta sig við silfrið. En keppnin var sannarlega skemmtileg og gott ef hún yljaði ekki áhorfendum og starfsmönnum í nepjunni.

Akureyrski spretthlauparinn í FH, Kolbeinn Höður Gunnarsson, vann þriðju gullverðlaun sín á mótinu þegar hann sigraði í 100 m hlaupinu í dag. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, sprettharðasta kona landsins ákvað að taka ekki þátt í 200 metra hlaupinu í dag. Hún varð Íslandsmeistari í 100 m í gær en tók ekki áhættuna á að meiðast í kuldanum.

Smellið hér til að sjá fleiri myndir af langstökkvurunum og öðrum keppendum í dag.

Smellið hér til að sjá öll úrslit á mótinu.

Birnir Vagn Finnsson, UFA, í langstökkinu. Hann fékk silfurverðlaun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

100 metra hlaupið af stað - Kolbeinn Höður Gunnarsson, Akureyringurinn í FH, í hvítum bol fyrir miðri mynd, vann þriðju gullverðlaunin á mótinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.