Sóley Margrét varð heimsmeistari
Akureyringurinn Sóley Margrét Jónsdóttir, sem keppir undir merkjum Breiðabliks, varð í dag heimsmeistari fullorðinna í kraftlyftingum með búnaði í + 84 kg flokki. Hún lyfti samtals 710 kg, 40 kg meira en sú sem varð í öðru sæti. Þá setti Sóley Margrét eitt heimsmet í unglingaflokki. Heimsmeistaramótið fer fram í Reykjanesbæ; í Ljónagryfjunni, gamla íþróttahúsinu í Njarðvík.
- Sóley lyfti mest 282,5 kg í hnébeygju og sigraði í þeirri grein. Önnur varð Valentyna Zahoruiko frá Úkraínu með 272,5 kg og þriðja Tuva Lierhagen frá Noregi með 262,5 kg.
- Í bekkpressu lyfti Sóley Margrét mest 200 kg og nældi sér þar með í silfurverðlaun. Sú norska, Tuva Lierhagen frá Noregi, lyfti sömu þyngd en þar sem hún er léttari en Sóley fékk Lierhagen gullið. Bandarísk stúlka, Mary Jane Krebbs, varð þriðja með 187,5 kg.
- Í síðustu greininni, réttstöðulyftu, lyfti Sóley Margrét mest 227,5 kg, jafn miklu og Valentyna Zahoruiko. Sömu er að segja af henni og Lierhagen hinni norsku; Zahoruiko er léttari en Sóley Margrét og hlaut því gullverðlaun, okkar kona varð í 2. sæti og hlaut silfur, en árangur hennar er heimsmet í unglingaflokki. Krebbs frá Bandaríkjunum varð þriðja með 225 kg.
- Samtals lyfti Sóley Margrét 710 kg og varð þar með heimsmeistari í fullorðinsflokki. Í öðru sæti varð Zahoruiko frá Úkraínu með samtals 670 kg og Krebbs frá Bandaríkjunum þriðja með 657, kg.
Frábær frammistaða Sóleyjar Margrétar: Tvenn gullverðlaun – í hnébeygju og samanlögðu, tvenn silfurverðlaun – í bekkpressu og réttstöðulyftu, eitt heimsmet unglinga og heimsmeistaratitill, í fullorðinsflokki!
Sóley Margrét hefur átt mikilli velgengni að fagna undanfarið. Hún er 23 ára og er því á síðasta ári í unglingaflokki en varð Evrópumeistari í fullorðinsflokki bæði 2023 og 2024 og varð í öðru sæti á heimsmeistaramóti fullorðinna 2022 og 2023.
Gréta Baldursdóttir, móðir Sóleyjar Margrétar, glöð í bragði með íslenska fánann á áhorfendabekkjunum í Reykjanesbæ í dag. Skjáskot af útsendingu RÚV2.
KA-maðurinn Alex Cambray Orrason varð níundi á HM.
KA-maðurinn Alex Cambray Orrason keppti fyrstur Íslendinganna á HM í gær og varð í níunda sæti.
- Alex sem keppir í -93 kg flokki lyfti 345 kg í hnébeygju sem skilaði honum sjötta sæti í greininni
- Í bekkpressu jafnaði Alex sinn besta árangur með lyftu upp á 212,5 kg.
- Í réttstöðulyftu náði hann mest 280 kg en var hársbreidd frá því að fara upp með 290 kg.
- Samanlagður árangur Alex varð 837,5 kg. sem er mjög nálægt Íslandsmeti hans. Árangurinn skilaði Alex 9. sæti í þyngdarflokknum.
MEÐ OG ÁN BÚNAÐAR
- Á HM í Reykjanesbæ er er keppt í kraftlyftingum með búnaði, sem fyrr segir.
- Munurinn á klassískum kraftlyftingum og búnaðarlyftingum er sá að í þeim klassísku má ekki notast við neinn aukabúnað eins og bekkpressuboli eða stálbrækur. Hnévafningar sem hægt er að herða að eins og með frönskum rennilás eru einnig bannaðir. Aðeins má nota hnéhólka sem ekki er hægt að herða og vafninga fyrir úlnlið.