Sóley Margrét valin kraftlyftingakona ársins
Akureyringurinn Sóley Margrét Jónsdóttir er kraftlyftingakona ársins á Íslandi og Júlían J.K. Jóhannsson kraftlyftingakarl ársins.
Sóley, sem flutti suður snemma á þessu ári og keppir nú fyrir Breiðablik, varð í haust Íslandsmeistari í + 84 kg flokki; lyfti 265 kg í hnébeygju, 180 kg í bekkpressu og 220 kg í réttstöðulyftu – samanlagt 665 kg. Allt voru það ný Íslandsmet, nema í hnébeygju þar sem hún hafði áður mest lyft 280 kg, sem er Íslandsmet.
Sóley hefur þar með lyft mestu þyngdum allra íslenskra kvenna í öllum greinum kraftlyftinga frá upphafi. Íslandsmet hennar í samanlögðu er aðeins 10 kg frá Evrópumetinu í hennar aldurs- og þyngdarflokki.
Á árinu setti Sóley auk þess Norðurlandamet í hnébeygju, bekkpressu og í samanlögðu í + 84 kg flokki.