Íþróttir
Skór Mörthu komnir á hilluna – KA/Þór í Eyjum
17.09.2022 kl. 12:32

Martha Hermannsdóttir fyrirliði KA/Þórs glöð í bragði á Akureyrarflugvelli þegar liðið kom norður eftir að hafa tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn vorið 2021. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Martha Hermannsdóttir, fyrirliði handboltaliðs KA/Þórs síðustu ár, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir glæsilegan feril.
Martha, sem verður 39 ára seinna á árinu, var lengi burðarás hjá KA/Þór og upplifði að verða bæði Íslands- og bikarmeistari með uppeldisfélaginu vorið 2021.
Martha glímdi við meiðsli veturinn sem KA/Þór varð meistari, aftur í fyrravetur og hefur nú ákveðið að láta gott heita.
Stelpurnar okkar hefja leik á Íslandsmótinu í dag þegar þær sækja Eyjamenn heim. Liðin hafa marga hildi háð á síðustu árum en miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópi KA/Þórs frá síðasta vetri; nokkrir lykilleikmenn eru horfnir á braut og fróðlegt verður að sjá hvernig hinu unga liði vegnar í vetur.
Leikurinn í Eyjum hefst klukkan 13.30.